Jákvæð raunávöxtun á krefjandi rekstrarári

19.04.2024

2023-hrein-eignJákvæð raunávöxtun var á öllum sameignar- og séreignardeildum LSR á árinu 2023 og skilaði sjóðurinn í heild 9,2% nafnávöxtun, sem samsvarar 1,1% raunávöxtun. Eignir jukust um 112 milljarða króna á árinu og var heildareign sjóðsins 1.405 milljarðar í árslok. Raunávöxtun síðustu 5 ára er 4,0% að meðaltali og 10 ára meðaltal raunávöxtunar er 4,4%.

Virkum sjóðfélögum fjölgaði um ríflega 700 frá fyrra ári og var meðalfjöldi þeirra 31.388. Lífeyrisþegum fjölgaði einnig og var meðalfjöldi þeirra 24.632 á síðasta ári samanborið við 23.527 árið á undan. Lífeyrisgreiðslur árið 2023 voru rúmlega 93 milljarðar kr.


2023-lifeyrisgreidslur



Þetta er meðal niðurstaðna ársreikninga LSR fyrir árið 2023, en stjórn sjóðsins undirritaði þá á fundi sínum þann 19. apríl. Þar kemur jafnframt fram að hrein raunávöxtun A-deildar LSR var 0,9%, B-deildar 1,5% og hjá Séreign var hrein raunávöxtun Leiðar I 2,7%, Leiðar II 0,1%, 0,7% hjá Leið III og 3,9% í Tilgreindri séreign, sem var stofnuð 1. júlí 2023. Tryggingafræðileg staða A-deildar hækkar úr -5,8% í -1,5% milli ára sem skýrist af breytingum á áunnum réttindum sem framkvæmdar voru á miðu ári.




2023-verdbrefaeignTalsverðar sveiflur á markaði

Markaðir voru sveiflukenndir á árinu 2023. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði fór hækkandi vegna þrálátrar verðbólgu. Hækkandi fjármögnunarkjör juku sveiflur og óvissu á innlendum hlutabréfamarkaði sem lækkaði mikið framan af ári. Undir lok árs vænkuðust hins vegar verðbólguhorfur og jákvæðar fréttir bárust af stórum hlutafélögum í kauphöllinni sem leiddi til hækkana. Þótt það hafi ekki dugað til að ársávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði yrði réttu megin við núllið skiluðu erlend hlutabréf hins vegar góðri ávöxtun og heildarniðurstaðan varð því 9,2% nafnávöxtun.

Eignasafn sjóðsins í árslok skiptist þannig að eign í skuldabréfum var 565,7 milljarðar kr., eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum var 672,7 milljarðar kr. og innlán námu 53,9 milljörðum kr. Hlutfall eigna í erlendri mynt var tæplega 41% og hlutfall verðtryggðra eigna var um 34,3% af eignasafni sjóðsins í árslok 2023.

Yfirlit yfir starfsemi á árinu

A-deild

Nafnávöxtun var 9,0% á árinu 2023 sem svarar til 0,9% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára er 4,1% og meðaltal síðustu tíu ára er 4,4%. Heildareignir A-deildar námu 1.140,1 milljörðum kr. í lok árs 2023.

Verðbréfaeign deildarinnar skiptist þannig í árslok 2023 að 43,5% af eignum A-deildar voru í skuldabréfum, 14,0% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 40,3% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 2,2% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 44,4% í árslok.

Á árinu 2023 fengu að meðaltali 12.569 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 21,2 milljarða kr. Að meðaltali greiddu 30.277 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar og námu iðgjöld á árinu samtals 46,2 milljörðum kr.

Ársreikningur A-deildar

B-deild

Nafnávöxtun var 9,9% á árinu 2023 sem svarar til 1,5% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára er 3,7% og meðaltal síðustu tíu ára er 4,2%. Heildareignir B-deildar námu 237 milljörðum kr. í lok árs 2023.

Verðbréfaeign deildarinnar skiptist þannig í árslok 2023 að 39,9% af eignum B-deildar voru í skuldabréfum, 14,1% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 39,6% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 6,4% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 41,4% í árslok.

Á árinu 2023 fengu að meðaltali 18.556 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 71,8 milljarða kr. Að meðaltali greiddu 843 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu og námu iðgjöld á árinu samtals 1,2 milljörðum kr.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2023 var 1.166,5 milljarðar kr. og hækkaði hún um 4,9% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 647,3 milljörðum kr. af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 519,1 milljarður kr. Endurmetin hrein eign sjóðsins var 239,4 milljarðar kr. í árslok samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt. Fyrir þeim 279,8 milljörðum kr. sem upp á vantar til að fjármagna skuldbindingar sjóðsins að fullu á hann kröfu á ríkissjóð vegna bakábyrgðar.

Ársreikningur B-deildar

Séreign

Fjárfestingarleiðir Séreignar eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra því mismikið.

Nafnávöxtun Leiðar I var 11,0% sem svarar til 2,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 8,2% sem svarar til 0,1% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 8,8% á síðasta ári sem svarar til 0,7% hreinnar raunávöxtunar. Tilgreind séreign hjá LSR var stofnuð 1. júlí 2023. Nafnávöxtun Tilgreindrar séreignar reiknuð á ársgrundvelli var 8,2%, sem svarar til 3,9% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir Séreignar námu 27,9 milljörðum kr. í árslok 2023. 

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2023 skiptist þannig að 34,5% voru í skuldabréfum, 9,0% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 54,2% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 2,2% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 54,2% í árslok.

Verðbréfaeign Leiðar II í árslok 2023 skiptist þannig að 61,4% voru í skuldabréfum, 7,7% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 28,1% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 2,8% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 28,1% í árslok.

Verðbréfaeign Tilgreindrar séreignar í árslok 2023 skiptist þannig að 45,7% voru í skuldabréfum, 8,8% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 33,3% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 12,2% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 33,3% í árslok.

Á árinu 2023 fengu að meðaltali 300 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign samtals að fjárhæð 924 milljónum kr. Iðgjöld námu rúmlega 1.399 milljónum kr. á árinu 2023 en að meðaltali greiddu 2.887 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu.

Ársreikningur Séreignar