Aukagreiðslur úr ríkissjóði styrkja fjárhagsstöðu B-deildar LSR og LH

28.05.2015

Aukagreiðslur úr ríkissjóði hafa styrkt fjárhagsstöðu B-deildar LSR og LH verulega en vegna þeirra hefur tekist að fresta því um 15 ár að B-deild LSR fari í þrot eða til ársins 2030. Að sama skapi hefur tekist að fresta því til ársins 2031 að LH fari í þrot eða um 14 ár. Þegar eignir eru ekki lengur til staðar þarf ríkissjóður að standa að fullu undir greiðslu lífeyris úr sjóðunum.

Réttindakerfi B-deildar LSR og LH er að hluta til byggt upp sem gegnumstreymiskerfi og að hluta með sjóðsöfnun. Þau réttindi sem sjóðfélagar ávinna sér eru mun meiri en hægt er að standa undir með 12% iðgjaldi. Vegna lokunar sjóðanna fyrir nýjum sjóðfélögum og uppbyggingu réttindakerfis þeirra, lá fyrir að eignir til að mæta skuldbindingum myndu klárast á endanum.

Frá árinu 1999 hefur ríkissjóður samtals greitt 90,5 milljarða kr. inn á skuldbindingar sínar við B-deild LSR og LH. Sú fjárhæð, uppfærð með ávöxtun sjóðanna, nam samtals 231,8 milljörðum kr. í árslok 2014. Þar af námu uppsafnaðir vextir og verðbætur 141,4 milljörðum kr. Á undanförnum þremur árum hefur inneign ríkissjóðs hækkað um 69,1 milljarð kr. vegna ávöxtunar sjóðanna.

Í árslok 2014 nam hrein eign B-deildar LSR til greiðslu lífeyris 227,3 milljörðum kr. Þar af var inneign ríkissjóðs vegna aukagreiðslna 211 milljarðar kr. eða 92,8%. Hrein eign LH í árslok 2014 nam 27,4 milljörðum kr. og þar af var inneign ríkissjóðs vegna aukagreiðslna 20,9 milljarðar eða 76,2%. Á árinu 2014 námu lífeyrisgreiðslur úr B-deild LSR og LH samtals 31,8 milljörðum kr. og fara hækkandi.

Tryggingastærðfræðingur sjóðanna hefur framkvæmt greiningu á framtíðargreiðsluflæði B-deildar LSR og LH. Reiknuð hefur verið sú upphæð sem sjóðirnir þurfa að greiða til lífeyrisþega í framtíðinni vegna réttinda sem þeir hafa áunnið sér og koma til með að ávinna sér fram að töku lífeyris. Greiðslur til lífeyrisþega í framtíðinni munu vera fjármagnaðar með eignum sjóðanna, sem eru annars vegna tilkomnar vegna aukagreiðslna frá ríkissjóði og hins vegar vegna iðgjaldagreiðslna og uppgjörs á skuldbindingum. Þar að auki fá sjóðirnir greiðslur frá launagreiðendum vegna hlutdeildar þeirra í lífeyrisgreiðslum og munu fá greiðslur frá bakábyrgðaraðilum þegar eignir eru uppurnar.

Skv. niðurstöðum tryggingastærðfræðings er hlutur launagreiðenda rúmlega helmingur af lífeyrisgreiðslum úr sjóðunum í framtíðinni. Hlutur launagreiðenda er innheimtur mánaðarlega samhliða greiðslu lífeyris. Að langstærstu leyti koma þær greiðslur úr ríkissjóði í samræmi við fjárlög hvers árs. Hvað varðar bakábyrgð launagreiðenda á greiðslu lífeyris þá þarf að fjármagna hana sérstaklega. Ríkissjóður hefur þegar fjármagnað 70% af bakábyrgð sinni með aukagreiðslum til sjóðanna. Hlutdeild launagreiðenda vegur mun meira í framtíðargreiðsluflæði sjóðanna en greiðslur vegna bakábyrgðar. Ófjármögnuð bakábyrgð ríkissjóðs vegur einungis um fjórðung af greiðslum hans til sjóðanna vegna hlutdeildar í lífeyrisgreiðslum í framtíðinni.

Hvað B-deild LSR varðar þarf ríkissjóður að standa að fullu undir greiðslu lífeyris úr sjóðnum frá og með árinu 2030. Samkvæmt sjóðsstreymisgreiningu verða greiðslur ríkissjóðs vegna bakábyrgðar að meðaltali 10,6 milljarðar kr. á ári næstu 5 árin eftir að sjóðurinn tæmist, miðað við verðlag í árslok 2014, en fara svo lækkandi. Á sama tíma munu tekjur B-deildar LSR vegna hlutdeildar launagreiðenda í lífeyrisgreiðslum nema tæpum 13,1 milljarði kr. að meðaltali en stærstur hluti þeirrar fjárhæðar kemur úr ríkissjóði.

Þegar eignir LH verða uppurnar á árinu 2031 munu samsvarandi árlegar greiðslur til LH nema 1 milljarði kr. vegna bakábyrgðar launagreiðenda og 2 milljörðum kr. vegna hlutdeildar þeirra í lífeyrisgreiðslum næstu 5 árin eftir að sjóðurinn tæmist, miðað við verðlag í árslok 2014.

Í þessum útreikningum er ekki gert ráð fyrir frekara aukaframlagi frá ríkissjóði, en gert er ráð fyrir að viðbótariðgjöld verði greidd áfram samhliða lögbundnum iðgjöldum um ókomna tíð.


Greiðslur sýndar í línuriti árin 2015 til 2060