Ný lög um neytendalán
Ný lög um neytendalán nr. 33/2013 taka gildi 1. nóvember 2013. Með tilkomu laganna er upplýsingaskylda lánveitanda aukin, m.a. þarf að gefa neytenda upplýsingar á stöðluðu eyðublaði áður en lán er veitt til að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um lántökuna. Lánveitendur skulu m.a. veita upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar til að auðvelda einstaklingum samanburð á lánskjörum. Samkvæmt lögunum skal árleg hlutfallstala kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.
Með lögunum er lánveitendum jafnfram skylt að meta lánshæfi einstaklinga. Lánshæfismat er byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Jafnframt er lánveitendum skylt að framkvæma greiðslumat við lánveitingu ef fjárhæð láns er 2.000.000 kr. eða hærra. Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal framkvæma greiðslumat áður en lán að fjárhæð 4.000.000 eða hærra er veitt.
Lögin kveða á um ýmis önnur réttindi til hagsbóta fyrir neytendur og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér þau vel. Lögin í heild sinni má nálgast inn á althingi.is.
Neytendastofa annast eftirlit með lögunum og eru ýmsar upplýsingar tengdar lögunum að finna á vef Neytendastofu. Sérstök athygli er vakin á bæklingi um neytendalán sem þar má finna.