Viljayfirlýsing um aðgerðir vegna lánsveða

23.04.2013

Ríkisstjórnin og Landssamtök lífeyrissjóða hafa í dag undirritað viljayfirlýsingu um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila með lánsveð sem nýtt voru til íbúðarkaupa.

Með viljayfirlýsingunni er stefnt að hliðstæðri lausn fyrir þá sem fengu lánsveð til íbúðarkaupa og var samkvæmt hinni svokölluðu 110% leið.  Miðað er við að eftirstöðvar húsnæðislána með lánsveð, sem tekin voru fyrir 1. janúar 2009, verði færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar en þó þannig að niðurfelling verði aldrei meiri en svo að skuldsetning eftir niðurfellingu verð ekki lægri en samanlögð veðsetning þegar fasteignalán (lán veðsett á eign skuldara og lán veðsett á eign þriðja aðila) var tekið. Miðað skal við uppreiknaða stöðu veðskulda þann 1. janúar 2011.

Niðurfærsla lána með lánsveði er háð því að eftirfarandi skilyrði verði uppfyllt;

  1. Að ríkisstjórnin afli nauðsynlegra lagaheimilda.
  2. Að samráð verði haft við Fjármálaeftirlitið, Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið.

Lífeyrissjóðirnir munu annast framkvæmd skuldaaðlögunarinnar og er ráðgert að hún komi til framkvæmda fyrir lok þessa árs, að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landssamtaka Lífeyrissjóða.