Erfiðasta ár í sögu LSR og LH að baki
Um síðustu áramót voru samanlagðar eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) 306 milljarðar króna og höfðu því lækkað um 34 milljarða frá árinu á undan. Eignir LSR voru tæplega 287 milljarðar króna og eignir LH tæplega 20 milljarðar króna.
Erfiðleikar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum höfðu mikil áhrif á afkomu sjóðanna á árinu 2008. Fall Glitnis, Kaupþings og Landsbankans í byrjun október hafði í för með sér afskriftir hlutabréfa og mikla niðurfærslu á skuldabréfaeign. Þá voru erlendir hlutabréfamarkaðir einnig óhagstæðir en heimsvísitala hlutabréfa lækkaði um 40,7% á árinu.
Við fall bankanna þriggja töpuðu lífeyrissjóðirnir þeim hlutabréfum sem þeir áttu í þeim. Ef miðað er við markaðsvirði bréfanna eins og það var síðustu daga fyrir fall Glitnis þá var samanlagt tap allra deilda LSR vegna þessa 23,4 milljarðar króna eða sem nemur 7,4% af eignum á þessum tíma. Tap LH vegna falls bankanna var 1,6 milljarðar króna eða 7,3% af eignum. Þessu til viðbótar er ekki gert ráð fyrir að neitt fáist upp í víkjandi skuldabréf á bankana en LSR átti víkjandi bréf á þá að fjárhæð 8,7 milljarða króna eða 2,7% af eignum sjóðsins og LH átti víkjandi bréf að fjárhæð 500,4 milljónir króna eða 2,3% af eignum sjóðsins. Bankahrunið hafði afdrifarík áhrif á mörg fyrirtæki sem höfðu gefið út skuldabréf og LSR og LH fjárfest í. Mikil óvissa er um afdrif margra fyrirtækja og um endurheimtur á afborgunum og vöxtum af þessum skuldabréfum.
Í uppgjöri sjóðanna er leitast við að meta þær kröfur sem kunna að tapast. Þörf fyrir niðurfærslu hefur verið áætluð og hafa færslur á afskriftareikning verið hækkaðar um 11,9 milljarða króna eða 3,8% af eignum LSR og er það til viðbótar afskriftarfærslum vegna víkjandi lána á bankana þrjá. Niðurfærslur hjá LH voru áætlaðar 801,6 milljónir eða 3,7% af eignum. Að auki hefur verið tekið tillit til afskrifta hlutabréfa og víkjandi bréfa vegna Straums og SPRON samtals að fjárhæð 1,5 milljarðar króna hjá LSR og 157,4 milljónir hjá LH.
Gjaldeyrisvarnir
Frá árinu 2001 hafa LSR og LH gert samninga sem miða að því að draga úr sveiflum í ávöxtun af erlendum verðbréfum og til að verja sjóðina fyrir falli á erlendri verðbréfaeign þegar gengi íslensku krónunnar breytist. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru í íslenskum krónum en erlend verðbréf eru í öðrum gjaldmiðlum. Styrkist gengi íslensku krónunnar draga gjaldeyrisvarnarsamningar úr lækkun á verðmæti erlendrar eignar þegar hún hefur verið reiknuð yfir í íslenskar krónur. Þess á móti ef krónan veikist draga samningarnir úr hækkun á verðbréfaeign, sé hún reiknuð yfir í íslenskar krónur.
Á árinu 2008 veiktist gengi krónunnar verulega. Lífeyrissjóðirnir juku því varnarstöðuna smátt og smátt eftir því sem leið á árið. Eftir að viðskiptabankarnir féllu í október gátu lífeyrissjóðirnir ekki lokað gjaldeyrisvarnarsamningum eða gert ráðstafanir til að draga úr tapi af þeim. Krónan hélt áfram að veikjast og auk þess lækkuðu erlendir hlutabréfamarkaðir mikið á síðasta fjórðungi ársins. Það hafði aftur þau áhrif að varnarhlutfall sjóðanna jókst enn frekar.
Óvissa ríkir um hvernig og hvort gera eigi upp neikvæða stöðu á þessum samningum. LSR, LH og aðrir lífeyrissjóðir hafa haldið því fram að forsendur hafi brostið fyrir tilvist samninganna í aðdraganda að falli bankanna og við fall þeirra. Til að draga úr óvissu hafa sjóðirnir boðist til að gera samningana upp miðað við tilteknar forsendur. Samkvæmt því væri neikvæð staða samninganna 16,4 milljarðar króna hjá LSR og 1,4 milljarðar króna hjá LH og eru þær fjárhæðir færðar í ársuppgjör sjóðanna sem varúðarfærslur vegna gjaldeyrisvarnarsamninga.
Komi til þess að sjóðirnir þurfi að gera upp neikvæða stöðu samninganna þá eiga þeir kröfu á bankana þrjá, samtals að fjárhæð 7,4 milljarðar króna hjá LSR og 577,2 milljónir króna hjá LH sem nota má til skuldajöfnunar.
Ávöxtun
Nafnávöxtun LSR var -13,0% á árinu 2008 sem svarar til -25,3% hreinnar raunávöxtunar. Í árslok 2008 voru 60,3% af verðbréfaeignum sjóðsins í innlendum skuldabréfum, 1,8% í erlendum skuldabréfum, 1,2% í innlendum hlutabréfum og 36,7% í erlendum hlutabréfum.
Ársuppgjör 2008
B-deild LSR
Heildareignir B-deildar LSR námu 172,9 milljörðum króna í lok árs 2008. Nafnávöxtun B-deildar LSR var -14,0% á árinu 2008 sem svarar til -26,1% hreinnar raunávöxtunar.
Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2008 skiptist þannig að 60,2% voru í innlendum skuldabréfum, 1,7% í erlendum skuldabréfum, 1,1% í innlendum hlutabréfum og 37,0% í erlendum hlutabréfum.
Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2008 var 495 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir, sem jafngildir 3,5% ávöxtun umfram vísitölu neysluverðs, og hækkaði hún um 12,6% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 210,4 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 284,6 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 172,9 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs.
A-deild LSR
Heildareignir A-deildar LSR námu 107,4 milljörðum króna í lok árs 2008. Nafnávöxtun A-deildar LSR var -11,5% á árinu 2008 sem svarar til -24,0% hreinnar raunávöxtunar.
Í árslok 2008 voru 60,8% af verðbréfaeignum deildarinnar í innlendum skuldabréfum, 2,1% í erlendum skuldabréfum, 1,3% í innlendum hlutabréfum og 35,9% í erlendum hlutabréfum.
Í lögum um lífeyrissjóði hefur verið miðað við að grípa skuli til viðeigandi ráðstafana ef munur á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga er meiri en 10%. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem gildir vegna uppgjörs fyrir árið 2008 má þessi munur vera allt að 15%. Heildarstaða A-deildar er neikvæð um sem nemur 13,1% og kemur því ekki sjálfkrafa til breytinga á iðgjaldaprósentu. Stjórn sjóðsins mun hins vegar taka til skoðunar hvaða áhrif neikvæð tryggingafræðileg staða hefur á framtíðarþróun sjóðsins.
Séreign LSR
Ávöxtun Séreignar LSR var mismunandi á milli fjárfestingarleiða. Fjárfestingarstefna leiðanna þriggja gerir ráð fyrir mismunandi vægi hlutabréfa og skuldabréfa og sveiflast ávöxtun þeirra þar af leiðandi mismikið. Nafnávöxtun leiðar I var -15,8% sem svarar til -27,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun leiðar II var -4,4% sem svarar til -17,9% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 25,8% á síðasta ári sem svarar til 8,0% hreinnar raunávöxtunar. Við samanburð á ávöxtun Séreignar LSR við ávöxtun A- og B-deildar sjóðsins er rétt að hafa það í huga að skuldabréf eru gerð upp á markaðsvirði í séreigninni en á kaupkröfu í öðrum deildum.
Heildareignir Séreignar LSR námu 6,6 milljörðum króna í árslok 2008 og dróst hrein eign sjóðsins saman um 22 milljónir króna eða 0,3%.
Verðbréfaeign leiðar I í árslok 2008 skiptist þannig að 45,6% voru í innlendum skuldabréfum, 1,9% í erlendum skuldabréfum, 2,0% í innlendum hlutabréfum og 50,5% í erlendum hlutabréfum. Verðbréfaeign leiðar II um áramót var þannig að 70,8% var í innlendum skuldabréfum, 3,1% í erlendum skuldabréfum, 1,1% í innlendum hlutabréfum og 24,9% í erlendum hlutabréfum.
Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga
Heildareignir LH í árslok 2008 námu 19,6 milljörðum króna. Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga var -14,6% á árinu 2008 sem svarar til –26,7% hreinnar raunávöxtunar.
Verðbréfaeign sjóðsins í árslok 2008 skiptist þannig að 55,8% voru í innlendum skuldabréfum, 2,2% í erlendum skuldabréfum, 1,1% í innlendum hlutabréfum og 40,9% í erlendum hlutabréfum.
Áfallin skuldbinding sjóðsins í árslok 2008 var 57,0 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir og hækkaði um 14,3% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 28, 5 milljörðum króna af skuldbindingum sjóðsins með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 28,5 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 19,6 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs og annarra launagreiðenda.