Fundur með launafulltrúum 12 sveitarfélaga
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hélt mánudaginn 8. desember fund með 13 launafulltrúum 12 sveitarfélaga á Suðvesturhorni landsins, þ.e. frá Árborg, Bessastaðahreppi, Borgarbyggð, Garðabæ, Gerðahreppi, Grindavík, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Sandgerði, Seltjarnarnesi, Stykkishólmsbæ, og Sveitarfélaginu Ölfus. Í stefnumótun LSR og LH fyrir næsta ár er m.a. lögð áhersla á aukið samstarf við launagreiðendur. Þessi fundur er sá fyrsti af mörgum sem haldnir verða á næstu mánuðum í því skyni. Mikil þátttaka var í umræðum og fyrirspurnum og ljóst að þörf fyrir fund af þessu tagi var mikil. Sjóðurinn þakkar þeim launafulltrúum sem komu til fundarins og væntir í framtíðinni mikils af samstarfi við þá.
Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri bauð fundarmenn velkomna og rakti í stuttu máli mikilvægi þeirra samskipta sem sjóðurinn hefur við launafulltrúa. Þeir þyrftu að standa skil á iðgjöldum fyrir þá starfsmenn sveitarfélaganna sem tryggðir væru hjá sjóðnum, tilkynna um starfslok þeirra og upplýsa um launabreytingar svo hægt væri að láta lífeyri endurspegla laun sem verið væri að greiða fyrir starf lífeyrisþeganna.
Arnfríður Einarsdóttir deildarstjóri iðgjaldadeildar gerði í stuttu máli grein fyrir væntanlegum breytingum sem nýtt tölvukerfi hjá LSR mun hafa í för með sér fyrir skil á iðgjöldum þar sem krafist yrði aukinna upplýsinga. Ljóst er að laga þarf þau launakerfi sem sveitarfélögin eru að nota að þessum breyttu kröfum og einnig að samræma númer á kjarasamningum sem sveitarfélögin og LSR eru að nota. Tölvukerfið verður tekið í notkun um næstu áramót en launagreiðendur munu hafa góðan aðlögunartíma.
Ágústa Gísladóttir deildarstjóri Séreignar LSR kynnti starfsemi séreignardeildar í stuttu máli en því næst fjallaði Helga Guðmundsdóttir deildarstjóri lífeyrisdeildar um mikilvægi þeirra upplýsinga sem þyrftu að liggja fyrir við upphaf lífeyristöku; nauðsynlegt væri að starfslokatilkynningar hefðu að geyma nákvæmar upplýsingar sem byggja þyrfti á við úrskurð lífeyris. Sundurgreiningu á samsetningu lokalauna væri nauðsynlegt að upplýsa, þar sem um hana væri að ræða, því síðar meir gæti þurft á slíkum upplýsingum að halda við endurskoðun á launaviðmiði lífeyris.
Páll Ólafsson deildarstjóri eftirmannsreglu gerði að lokum grein fyrir hvaða meginsjónarmið giltu við framkvæmd eftirmannsreglunnar, þ.e. að lífeyrir endurspeglaði jafnan þau laun sem verið væri að greiða hverju sinni fyrir það starf er sjóðfélaginn sinnti síðast. Sjóðurinn legði ríka áherslu á að skapa traust hjá launagreiðendum, stéttarfélögum og ekki síst sjóðfélögum. Markmið sjóðsins væri að allir fengju endurskoðun á launaviðmiði lífeyris árlega. Því væru góð samskipti við launagreiðendur nauðsynleg og áríðandi að allir hefðu sama skilning á hvernig túlka bæri kjarasamninga sem greitt væri eftir og þekktu þær meginreglur sem sjóðurinn hefur við framkvæmd eftirmannsreglunnar.