Vextir af sjóðfélagalánum LSR lækkaðir í 4,33%

10.09.2004

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur ákveðið að lækka vexti af sjóðfélagalánum úr 4,83% í 4,33%. Breyting þessi nær bæði til nýrra og eldri lána. Við ákvörðun vaxta var tekið mið af ávöxtunarkröfu Íbúðabréfa eins og hún var í lok ágústmánaðar, nánar tiltekið flokki HFF 34 sem eru Íbúðabréf á gjalddaga 2034, að viðbættu 60 punkta álagi. Einnig var ákveðið að lengja hámarkslánstíma úr þrjátíu í fjörutíu ár. Þá hefur hámarksveðsetning sem hlutfall af verðmati eigna verið hækkuð úr 55% í 65%.

Athygli er vakin á því að lánstími sjóðfélagalána LSR er mjög sveigjanlegur samanborið við marga aðra kosti sem í boði eru þar sem lán LSR eru veitt frá fimm til fjörutíu ára, allt eftir óskum lántakanda. Þá er unnt að lengja eða stytta lánstímann. Þeir sem þegar hafa tekið lán hjá LSR geta því óskað eftir lengingu á greiðslutíma lána sinna og lækkað þar með greiðslubyrði þeirra. Einnig er ávallt heimilt að greiða lán upp að hluta eða öllu leyti án kostnaðar. Þar sem engin almenn fjárhæðarmörk eru á sjóðfélagalánum LSR takmarkast lánsfjárhæð einungis af greiðslugetu lántakanda og því veði sem lagt er fram til tryggingar. Hins vegar er ekki gerð krafa um fyrsta veðrétt.

Nánari upplýsingar veitir starfsfólk LSR í síma 510 6100 einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið lsr@lsr.is  Þá eru frekari upplýsingar um lánareglur sjóðsins hér á heimasíðu LSR.