Ný þjónusta á lánadeild lífeyrissjóðsins
Í byrjun desember hóf lánadeild lífeyrissjóðsins að bjóða viðskiptavinum sínum að annast fyrir þá þinglýsingu lánagagna. Viðskiptavinir lánadeildarinnar eiga því nú val milli þess að fara sjálfir með gögn sín til þinglýsingar eða að láta lífeyrissjóðina annast þá umsýslu fyrir sig.
Sá sem nýtir sér þjónustuna fær lánagögn sín til undirritunar og vottunar en skilar þeim að því loknu aftur til lánadeildarinnar, sem tekur þá við og annast umsýslu pappíranna. Stimpilgjald og þinglýsingargjald auk lántökugjalds eru dregin frá umbeðinni lánsfjárhæð við útborgun nýrra lána en við þinglýsingu annarra gagna þarf sá sem óskar eftir milligöngu lífeyrissjóðanna að greiða þinglýsingargjöldin beint til sjóðanna. Þessi þjónusta mun í byrjun takmarkast við umsýslu gagna gagnvart embættum sýslumannanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi viðbótarþjónusta kostar kr. 500,-. Það er von lífeyrissjóðsins að þessi nýja þjónusta geri alla lánaafgreiðslu þeirra einfaldari og þægilegri fyrir lántakendur.