Hluti lífeyrisgreiðslna afgreiddur degi fyrr

23.03.2021

Um næstu mánaðarmót (mars/apríl 2021) verður gerð sú breyting á lífeyrisgreiðslum LSR að þeir sjóðfélagar í A-deild sem fá eftirágreiddan lífeyri fá greitt út síðasta dag hvers mánaðar í stað fyrsta dags næsta mánaðar. Þannig fá þessir sjóðfélagar greitt út degi fyrr en verið hefur hingað til. Þessi breyting hefur engin áhrif á upphæð greiðslna úr sjóðnum.

Meirihluti sjóðfélaga í A-deild fær eftirágreiddan lífeyri, þannig að þessir sjóðfélagar geta nú glaðst yfir því að fá jafnan greitt degi fyrr en áður.

Aðskildar greiðslur fyrir sjóðfélaga sem eru bæði í A- og B-deild
Þetta leiðir jafnframt til þess að þeir sem eru sjóðfélagar í bæði A- og B-deild LSR munu hér eftir fá tvær greiðslur inn á reikninginn um hver mánaðarmót. Sú fyrri verður síðasta dag mánaðarins úr A-deild en sú síðari fyrsta dag næsta mánaðar úr B-deild.

Sérstakur launaseðill fylgir hvorri greiðslu en samanlögð lífeyrisupphæð úr báðum deildum um hver mánaðarmót mun ekki breytast vegna þessa. Breytingin hefur jafnframt engin áhrif á nýtingu persónuafsláttar eða útreikning á staðgreiðslu skatta hjá sjóðfélögum.