Hægt að greiða séreign áfram inn á lán

25.06.2021

Heimild til að greiða séreignarsparnað inn á húsnæðislán hefur verið framlengd til júní 2023. Þau sem hafa greitt séreign inn á lán þurfa hins vegar að sækja sérstaklega um að halda þeirri ráðstöfun áfram.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld veitt heimild til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán. Heimild til þess átti að renna út nú í júní 2021, en nýlega var ákveðið að framlengja heimildina til 2023. Sækja þarf um að séreign sé greidd inn á húsnæðislán á vefnum leidretting.is.

Við innskráningu á Leiðrétting.is fá þau sem hafa verið að nýta þetta úrræði undanfarið kost á að velja að halda áfram að ráðstafa séreign inn á húsnæðislán sitt eða hætta því. Ef ráðstöfunin er ekki framlengd fyrir 1. júlí fellur hún úr gildi og greiðslur fara aftur að renna í séreignarsjóð sjóðfélaga. 

Þau sem hafa ekki nýtt úrræðið hingað til þurfa að sækja um það á Leiðrétting.is. Einstaklingur getur að hámarki greitt 750.000 kr. á ári inn á húsnæðislán með þessu úrræði og er ávallt hægt að sjá stöðu útgreiðslna með því að skrá sig inn á Leiðrétting.is.