Aukin áhersla á sjálfbærni

04.09.2024

HeidrunStórt skref var stigið í sjálfbærnivegferð LSR í sumar þegar Heiðrún Hödd Jónsdóttir var ráðin í nýja stöðu sérfræðings í sjálfbærnimálum hjá sjóðnum. Heiðrún mun leiða framkvæmd á sjálfbærnistefnu sjóðsins, sem nær bæði til fjárfestinga sjóðsins og innri starfsemi hans.

Sjálfbærni verður sífellt mikilvægari hvort sem það er í daglegu lífi okkar eða starfsemi fyrirtækja og stofnana. Með sjálfbærni er vísað til þess hvernig uppfylla megi þarfir núverandi kynslóða án þess að skerða þarfir komandi kynslóða og stuðla á sama tíma að jafnvægi milli hagvaxtar, umhverfis, félagslegrar velferðar og ábyrgra stjórnarhátta. Auknar kröfur eru gerðar um að rekstur sé í samræmi við gildandi sjálfbærniviðmið og reglur um upplýsingagjöf. Í takt við þetta hefur LSR jafnt og þétt aukið áherslu sína á sjálfbærni og er ný staða sérfræðings í sjálfbærni liður í þeirri vegferð.

Heiðrún starfaði áður hjá Deloitte í Danmörku, þar sem hún vann við ráðgjöf, áhættugreiningu og skýrslugerð í tengslum við sjálfbærni fyrirtækja. Hún hefur masterspróf í alþjóðasamskiptum frá Roskilde-háskóla og er með diplómu í sjálfbærnifræðum frá Oxford-háskóla.

Heiðrún er nýflutt heim eftir sjö ára veru í Danmörku. Hún segir tímann þar hafa verið lærdómsríkan í sínu fagi, enda séu sjálfbærnimál að mörgu leyti komin lengra á veg á meginlandi Evrópu heldur en hér heima. Það helgast m.a. af því að innan ESB hafi lög og reglugerðir tekið fyrr gildi en innan EES. „Það er ákveðinn kostur að hafa unnið í umhverfi þar sem lagarammi og verklag var komið lengra á veg en hér heima, því þá veit ég hvað er í vændum á íslenska markaðnum, hvað þurfi að framkvæma og með hvaða hætti,“ segir Heiðrún.

Heiðrún bendir á að hingað til hafi fyrirtæki og stofnanir getað valið hvers konar sjálfbærniverklag skuli taka upp og hvaða stöðlum skuli fylgja í þeim efnum. Það hefur leitt til minna gagnsæis og aukið líkur á grænþvotti. Nú sé hins vegar verið að taka upp skýrari lagaramma og staðla sem öll fyrirtæki og stofnanir þurfa að fara eftir, bæði hvað varðar sjálfbærni í starfsemi, fjárfestingum og upplýsingagjöf.

Meðal þeirra reglugerða og tilskipana um sjálfbærni sem hafa verið innleiddar hér á landi eða eru í innleiðingarferli eru:

  • EU Taxonomy – flokkunarreglugerð ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem inniheldur samræmda skilgreiningu á því hvað telst umhverfislega sjálfbær starfsemi fyrirtækja.
  • SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation) – reglugerð um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, sem leggur skyldur á aðila á fjármálamarkaði að birta upplýsingar um hvernig sjálfbærniáhætta er felld inn í fjárfestingarákvarðanir.
  • CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive) – staðlar fyrir sjálfbærnireikningsskil, sem er heildarrammi fyrir ófjárhagsleg reikningsskil innan EES.

„Allt er þetta gert til að auka gagnsæi, áreiðanleika og ábyrgð fyrirtækja og stofnana þegar kemur að sjálfbærni. Þar með þurfum við öll að taka sjálfbærni fastari tökum, bæði hvað varðar verklag og upplýsingagjöf. Fyrir LSR sem fjárfesti þýðir þetta ekki bara að sjóðurinn þurfi að tryggja sjálfbærni í eigin starfsemi, heldur líka að þau fyrirtæki og sjóðir sem fjárfest sé í fylgi viðurkenndu verklagi í þessum efnum. Þess vegna þurfum við að byggja upp þekkingu og efla verklag hvað þetta varðar,“ segir Heiðrún.

Hún segir mörg spennandi en krefjandi verkefni fyrir dyrum næstu misserin. Þar á meðal er þróun og stöðlun verklags hjá sjóðnum til samræmis við auknar kröfur um upplýsingagjöf og gagnsæi, til að mynda við fjárfestingarákvarðanir. „Það er stefna LSR að vera leiðandi á sviði sjálfbærni, enda horfum við til langs tíma í starfsemi okkar. Þannig setjum við líka gott fordæmi sem nýtist vonandi sem flestum hér heima, því þetta er vegferð sem öll fyrirtæki og stofnanir á landinu þurfa að leggja upp í á komandi árum,“ segir Heiðrún.