Fjárfestingar eru í eðli sínu sveiflukenndar, en LSR leggur áherslu á að kynna árangurinn hverju sinni fyrir sjóðfélögum. Í síðustu ársskýrslu var fjallað um eignasafn sjóðsins og fjárfestingar í sérstökum kafla á blaðsíðum 12-23.
Yfirlit yfir meðalávöxtun á erlendum verðbréfamörkuðum má finna í ársskýrslu LSR.
Þar kemur m.a. fram að erlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini skiluðu 26,9% nafnávöxtun á árinu 2020, en til samanburðar hækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) um 21,8%. Þannig má sjá skýrt í ársskýrslunni hvernig fjárfestingarstefna LSR skilaði sjóðnum talsvert betri árangri en fjárfestar á alþjóðlegum markaði fengu að meðaltali á síðasta ári.
Í ársskýrslunni má einnig finna sambærilegan samanburð á fjárfestingum LSR á innlendum hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði við vísitölur á þessum mörkuðum.
Gott er líka að hafa í huga að allar ávöxtunartölur í ársskýrslunni eru að teknu tilliti til kostnaðar, bæði stjórnunarkostnaðar og allra fjárfestingargjalda. Þannig vísar ávöxtunin ávallt til þess beina ávinnings sem sjóðfélagar fá af fjárfestingum hverju sinni.