Spurt og svarað
Almennt
Hver er munurinn á eftirmannsreglu og meðaltalsreglu?
Lífeyrisgreiðslur samkvæmt eftirmannsreglu fylgja kjarasamningsbundnum breytingum sem verða á launum fyrir lokastarf eða eftir atvikum fyrir hærra launað starf. Ef hækkun verður á launum eftirmanns í starfi kannar sjóðurinn í samráði við launagreiðanda hvort lífeyrisþegi skuli njóta þeirrar hækkunar.
Lífeyrir samkvæmt meðaltalsreglu fylgir þeim breytingum sem verða að meðaltali á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Hagstofa Íslands reiknar út þessar meðalbreytingar mánaðarlega. Hægt er að skipta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu en ekki öfugt. Fylla þarf út umsókn um slíkt á sérstöku eyðublaði. Slík breyting tekur gildi 3 mánuðum eftir að umsókn berst LSR.
Hverjir hafa val og hvenær má velja eftirmanns eða meðaltalsreglu?
Þeir sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geta valið að lífeyrir fylgi þeim breytingum sem verða á launum fyrir starfið. Starfsfólk sjóðsins getur aðstoðað við val á reglu. Þeir sem velja eftirmannsreglu (að lífeyrir fylgi þeim breytingum sem verða á launum fyrir viðmiðunarstarfið) geta hvenær sem er breytt yfir á meðaltalsreglu sem er þá endanlegt val.
Hvernig sæki ég um lífeyri?
Allir þurfa að sækja um lífeyri hvort sem vinnuveitandi tilkynnir um starfslok eða ekki. Hægt er að sækja umsóknareyðublað á vef sjóðsins eða óska eftir því að fá það sent í pósti.
Ef ætlunin er að nýta skattkort hjá LSR þá þurfum við að fá upplýsingar um:
- Hversu hátt skattkort á að vera hjá LSR
- Frá hvaða tíma á að nota skattkortið
Það nægir að senda tölvupóst með þessum upplýsingum.
Varðandi uppsöfnun þá er það á ábyrgð sjóðfélaga að gefa upp hvað búið er að nota mikið af skattkortinu. Hægt er að fá upplýsingar um notkun á vef Ríkisskattstjóra www.rsk.is.
Við hvað er miðað þegar lífeyrir er reiknaður út?
Við upphaf lífeyristöku hjá sjóðfélögum LSR B-deildar reiknast lífeyrir sem hlutfall af lokalaunum eða eftir atvikum af hærra launuðu starfi. Eftir það breytast lífeyrisgreiðslur skv. eftirmannsreglu eða meðaltalsreglu. Sjá nánar um fjárhæð lífeyris.
Í hvaða lífeyrissjóðum á ég réttindi?
Lífeyrissjóðir hafa gert með sér samkomulag um að halda nafnaskrá yfir alla þá sem einhvern tímann hafa greitt iðgjald í lífeyrissjóð. Í þeirri skrá kemur fram til hvaða lífeyrissjóða hver einstaklingur hefur greitt en ekki hvenær, hversu lengi eða hver réttur viðkomandi er í hverjum sjóði. Hafa þarf samband við viðkomandi sjóð til að fá þær upplýsingar.
Eftirlaun
Hvenær er hægt að hefja töku eftirlauna hjá LSR?
Almennur lífeyristökualdur er 67 ara í A-deild. Sjóðfélagar í A-deild sjóðsins geta þó hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum frá 60 til 80 ára og þurfa þeir ekki að vera hættir störfum þegar taka lífeyris hefst. Sjóðfélagar í B-deild sjóðsins geta hafið töku lífeyris mánuði eftir 65 ára skv. almennu reglunni en 60 ára skv. 95 ára reglunni hafi þeir látið af því fasta starfi sem veitti þeim aðild að sjóðnum.
Get ég tekið hálfan lífeyri?
Sjóðfélagar B-deildar geta tekið hálfan lífeyri frá 65 ára aldri. Heimildin er bundin því skilyrði að sjóðfélagi sé ekki í meira en 50% starfi sem veitir aðild að B-deild.
Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um skilyrði þess að fá greiddan hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun. Athuga þarf að skilyrði fyrir hálfum lífeyri hjá Tryggingastofnun geta breyst ef breytingar verða á lögum eða öðrum gildandi reglum sem varða lífeyrisgreiðslur stofnunarinnar.
Nánari upplýsingar um töku hálfs lífeyris má finna á vef Tryggingastofnunar.
Örorkulífeyrir
Á ég rétt á örorkulífeyri?
Sjóðfélagar í A-deild sjóðsins, sem þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 40% eða meira og áunnið hafa sér a.m.k. 2 stig, eiga rétt á örorkulífeyri. Sjóðfélagar í B-deild LSR sem þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 10% eða meira, eiga rétt á örorkulífeyri