Upphaf eftirlaunatöku
Hvenær má ég hefja töku eftirlauna úr B-deild LSR?
Aldur og iðgjaldagreiðslutími ráða því hvenær þú átt rétt á töku eftirlauna.
Almennur eftirlaunaaldur er 65 ár. Þeir sem ná 95 ára reglu (samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími) hafa val um að hefja töku eftirlauna fyrir 65 ára, eftir að 60 ára aldri er náð.
Til að geta hafið töku eftirlauna verður þú að láta af starfi sem veitir þér aðild að sjóðnum.
32 ára reglan - hin almenna regla - eftirlaunaaldur er 65 ára
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans niður og frá sama tíma greiðir launagreiðandinn 12% af þeim launum sem iðgjöld reiknast af. Þeir sjóðfélagar, sem velja almennu regluna, verða því iðgjaldafríir upp frá því en ávinna sér 1% réttindi á ári, miðað við fullt starf, í stað 2% áður.
Þeir, sem velja 32 ára regluna, geta í fyrsta lagi hafið töku eftirlauna við 65 ára aldur. Eftir að eftirlaunaaldri er náð og sjóðfélagi lætur ekki af störfum, ávinnast 2% réttindi á ári að nýju miðað við fullt starf.
Dæmi: Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára og greiðir iðgjöld af fullu starfi í 32 ár eða til 57 ára aldurs, ávinnur sér 64% lífeyrisrétt.
- Frá 57 ára aldri til 65 ára aldurs bætir hann við sig 1% á ári eða alls 8%.
- Láti sjóðfélaginn af störfum 65 ára hefur hann áunnið sér 72% eftirlaunarétt.
- Starfi hann áfram til 70 ára aldurs bætir hann 2% við rétt sinn fyrir hvert ár frá 65 ára aldri til 70 ára aldurs eða samtals 10% fyrir þessi ár. Eftirlaunaréttur við 70 ára aldur verður þá alls 82%.
95 ára reglan - val um eftirlaunaaldur fyrir 65 ára
Með 95 ára reglu er átt við samanlagðan iðgjaldagreiðslutíma og lífaldur. 95 ára regla gerir sjóðfélögum kleift að hefja töku eftirlauna fyrir 65 ára aldur. Þeir, sem ná þessu marki áður en 64 ára aldri er náð, geta hafið töku eftirlauna en þó aldrei fyrr en þeir hafa náð 60 ára aldri. Þeir, sem ná 95 ára reglu fyrr, verða að halda áfram í starfi sem veitir þeim aðild að B-deild LSR þar til 60 ára aldri er náð og/eða fram að þeim tíma er þeir hefja töku eftirlauna.
Hámarksréttindi þegar 95 ára reglu er náð eru 64% og þá falla iðgjaldagreiðslur sjóðfélagans niður. Haldi sjóðfélagi áfram starfi eftir að hann nær reglunni bætir hann við sig 2% fyrir hvert ár í fullu starfi.
Dæmi: Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára, nær 95 ára markinu þegar hann verður 60 ára. Hann greiðir þá í sjóðinn í 35 ár (60+35=95).
- Sjóðfélagi þessi hefur rétt á að hefja töku eftirlauna við 60 ára aldur. Áunninn eftirlaunaréttur verður þá 64%.
- Starfi hann áfram til 65 ára aldurs verður rétturinn 74%.
- Starfi hann áfram til 70 ára aldurs verður rétturinn 84%.
Réttindi sjóðfélaga sem eru hættir að greiða í sjóðinn - geymdur réttur
Ef þú hefur einhvern tímann greitt til B-deildar LSR en hættir því á einhverjum tímapunkti án þess að hefja töku eftirlauna áttu geymdan lífeyrisrétt.
Launaviðmið fyrir eftirlaun fylgir meðalbreytingum á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því þú hættir iðgjaldagreiðslum til sjóðsins. Hafir þú látið af þeim störfum fyrir janúar 1997 er þó miðað við þau laun sem starfinu fylgdu til ársloka 1996 en eftir það breytist áunninn réttur samkvæmt framangreindri meðaltalsreglu.
Geymd réttindi sjóðfélaga, sem greitt hafa skemur en þrjú ár í LSR, eru óverðtryggð. Eftir að taka eftirlauna hefst taka þau sömu breytingum og verða að meðaltali á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Ef um er að ræða verulega lág réttindi er boðið upp á eingreiðslu.
Eigir þú geymd réttindi í B-deild og greiðir í A-deild af starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði B-deildar um ráðningu, áttu ekki rétt á töku eftirlauna úr B-deild á meðan þú gegnir því starfi.
Flýtileiðir
- Stafræn umsókn um eftirlaun Krefst rafrænna skilríkja í síma