Örorkulífeyrir
Trygging vegna skertrar starfsorku
Örorkulífeyrir úr A-deild LSR aðstoðar við að bæta upp tekjumissi sjóðfélaga sem hafa þurft að minnka við sig vinnu eða látið af störfum vegna sjúkdóms eða slyss.
Mat á rétti til örorkulífeyris
Til að sjóðfélagi öðlist rétt til örorkulífeyris þarf trúnaðarlæknir sjóðsins að meta örorkuna a.m.k. 40%, í þrjá mánuði eða lengur.
Fyrstu 5 árin miðast örorkumat við hæfni sjóðfélagans til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og veitt honum aðild að sjóðnum. Að því tímabili loknu miðast örorkumat við getu hans til almennra starfa.
Samanlagður lífeyrir, barnalífeyrir, almannatryggingar og/eða aðrar launagreiðslur skal aldrei vera hærri en sá tekjumissir sem sjóðfélaginn hefur sannarlega orðið fyrir sökum orkutaps. Við mat á tekjumissi er horft til meðallauna síðustu þriggja almanaksára fyrir orkutap og þau viðmiðunarlaun borin saman við tekjur sjóðfélaga eftir orkutap.
Hægt er að setja það sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans.
Gögn sem skila þarf til LSR
- Útfyllt og undirrituð umsókn
- Ítarlegt læknisvottorð, ekki eldra en 3ja mánaða
Fjárhæð örorkulífeyris
Örorkulífeyrir tekur mið af örorkumati.
Fjárhæð örorkulífeyris fer eftir þeim réttindum sem sjóðfélagi hefur áunnið sér við starfsorkutap. Jafnframt kann sjóðfélagi að eiga rétt til framreiknings en þá er auk áunninna réttinda reiknað með þeim réttindum sem hann hefði áunnið sér hjá sjóðnum eins og greitt hefði verið til 65 ára aldurs.
Til að sjóðfélagi eigi rétt á framreikningi, þarf hann að hafa greitt iðgjald til sjóðsins í a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og greitt iðgjald í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum fyrir orkutapið.
Við mat á iðgjaldagreiðslutíma er tekið tillit til iðgjalda sem greidd hafa verið til annarra lífeyrissjóða sem eiga aðild að samkomulagi sem flestir lífeyrissjóðir hafa gert með sér. Sjá nánar um réttindi í öðrum sjóðum.
Örorkulífeyrir skerðir ekki áunnin réttindi.
Fjárhæð barnalífeyris vegna örorku
- Börn sjóðfélaga sem uppfylla skilyrði til framreiknings eiga rétt til barnalífeyris.
- Barnalífeyrir vegna örorku greiðist framfæranda barnsins til 18 ára aldurs, en eftir það til barnsins til 22 ára aldurs.
Fullur mánaðarlegur barnalífeyrir vegna örorku er kr. 27.223 í nóvember 2024.
Flýtileiðir
- Stafræn umsókn um örorkulífeyri Krefst rafrænna skilríkja í síma