B deild
Rétt iðgjaldaskil
Iðgjald til B-deildar LSR er 12%. Sjóðfélagi greiðir 4% og launagreiðandi 8%.
Iðgjald skal greiða af dagvinnulaunum, orlofsuppbót, persónuuppbót, annaruppbót kennara og vaktaálagi vegna reglubundinna vakta, en ekki bakvakta eða aukavakta. Iðgjöld skal einnig greiða af biðlaunum og veikindalaunum. Sérákvæði gilda fyrir kennara.
Iðgjaldagreiðslur til B-deildar standa yfir þar til sjóðfélagi hættir störfum, óháð aldri.
Starfshlutfall
Ekki má greiða af hærra starfshlutfalli hjá sama launagreiðanda en 100% og einungis á að greiða iðgjald til B-deildar fyrir þá starfsmenn, sem eru í að minnsta kosti 50% starfi. Ekki á að greiða iðgjald til B-deildar af lægra starfshlutfalli. Þó er heimilt að greiða iðgjald til B-deildar af minna en 50% launum þegar starfsmaður, sem aðild á að sjóðnum, fær greidd laun í veikindum og þessi veikindalaun fara niður fyrir 50% af fullum launum.
Sama á við þegar starfsmaður, sem tæmt hefur veikindarétt sinn, kemur aftur til starfa eftir langvarandi veikindi og er tímabundið í skertu starfshlutfalli, sem er lægra en 50%. Jafnframt er heimilt að greiða af minna en 50% starfi þegar launagreiðslur fara niður fyrir 50% laun í fæðingarorlofi. Ef starfsmaður, sem á aðild að B-deild, eykur starfshlutfall sitt og fær greidd laun fyrir það skv. óbreyttum launaflokki, þ.e. aukið hlutfall fastra mánaðarlauna, skal greiða iðgjald til B-deildar af launum sem greidd eru fyrir þetta breytta starfshlutfall.
Falli iðgjaldagreiðsla sjóðfélaga niður lengur en í 12 mánuði hefur hann ekki rétt til áframhaldandi aðildar að B-deild. Hins vegar hafi iðgjaldagreiðslur fallið niður í lengri tíma en 12 mánuði, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi starfsmanns og launagreiðanda hafi verið slitið, er heimilt að greiða iðgjald til B-deildar. Til að uppfylla aðildarskilyrði þarf starfsmaðurinn að vera ráðinn í að minnsta kosti 50% starf með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ef um tímabundna ráðningu er að ræða má ráðningin ekki vera til skemmri tíma en eins árs. Þeir sem misst hafa aðild að B-deild eða eru nýir sjóðfélagar greiða til A-deildar.
Vaktaálag
Greiða skal iðgjald af vaktaálagi þeirra sem vinna reglubundnar vaktir. Sama regla gildir um næturverði og það starfsfólk sem hefur vinnuskyldu eingöngu á nóttunni, það er á tímabilinu frá kl. 22:00 til 09:00. Hins vegar á ekki að greiða iðgjald af öðrum álagsgreiðslum eins og t.d. bakvöktum eða gæsluvöktum og ekki af álagsgreiðslum vegna fasts vinnutíma utan dagvinnumarka, t.d. kl. 13 - 18 daglega.
Sérreglur vegna grunnskóla - kennaraviðbót 7,5%
Fyrir sjóðfélaga sem starfa sem kennarar eða skólastjórnendur grunnskóla, sem reknir eru af sveitarfélögum skv. lögum um grunnskóla, ber að greiða 7,5% iðgjald auk hefðbundins 12% iðgjalds.
Iðgjaldastofn er sá sami og fyrir almenna iðgjaldið og reiknast því heildariðgjald kennara og skólastjórnenda samtals 19,5% (4% + 8% + 7,5% = 19,5%).
Tvö störf hjá tveimur launagreiðendum
Ef starfsmaður gegnir samtímis fleiri störfum en einu hjá fleiri en einum launagreiðanda, sem tryggja starfsmenn sína hjá B-deild, þarf ráðning í hvert starf um sig að uppfylla aðildarskilyrði að B-deildinni, um þriggja mánaða uppsagnarfrest og um 50% starfshlutfall eða hærra. Ef ráðning í tvö/fleiri störf hjá tveimur/fleiri launagreiðendum uppfylla þessi skilyrði, þá á að greiða iðgjald til B-deildar af báðum/öllum störfunum. Þetta á við þó svo samanlagt starfshlutfall fari yfir 100%. Ath. í þessu sambandi er ríkið eða sveitarfélög einn launagreiðandi þó sjóðfélagi sé í fleiri störfum hjá þessum launagreiðendum.
Tvö störf hjá sama launagreiðanda
Þó svo starfsmaður gegni fleiri störfum en einu hjá sama launagreiðanda, skulu iðgjaldagreiðslur aldrei vera meiri en sem nemur iðgjöldum fyrir 100% starf. Ef starfsmaður gegnir tveimur störfum hjá sama launagreiðanda, er heimilt að líta á þessi störf sem eitt starf með tilliti til iðgjaldagreiðslna til B-deildar. Í þessum tilvikum er því heimilt að greiða iðgjald til B-deildar, þó svo einstakt starf sé innan við 50% starfshlutfall. Það er þó alltaf skilyrði að starfshlutfall samtals sé a.m.k. 50%, og að bæði/öll störfin séu unnin hjá sama launagreiðanda. Ath. í þessu sambandi er ríkið eða sveitarfélög einn launagreiðandi þó sjóðfélagi sé í fleiri störfum, t.d. vinnur á tveimur/fleiri stofnunum innan ríkisins eða sveitarfélaga.
Launaflokkamismunur vegna tímabundinna starfa
Ekki á að greiða iðgjald til B-deildar af launamismun sem starfsmaður fær greiddan fyrir að hafa tímabundið gegnt hærra launuðu starfi, t.d. vegna afleysinga. Hins vegar skal greiða til B-deildar af þessu hærra launaða starfi ef ráðningin í það uppfyllir aðildarskilyrði að B-deild, þ.á.m. um ráðningu til a.m.k. eins árs eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Orlof
Greiða ber iðgjöld til B-deildar af launum sem starfsmaður fær greidd í orlofi. Hins vegar á ekki að greiða iðgjald af orlofi sem gert er upp við starfsmann í starfslok, þ.e. eftir að ráðningartíma er lokið. Þegar sjóðfélagi hefur gegnt breytilegu starfshlutfalli ber að greiða iðgjald af því starfshlutfalli sem rekja má orlofsgreiðsluna til, þ.e. greitt er af þeim launum sem greidd eru í orlofinu.
Launalaus leyfi
Þegar iðgjöld eru frádregin (mínusfærslur) vegna þess að starfsmaður hefur fengið launalaust leyfi, þá er mikilvægt að réttar dagsetningar séu færðar á frádráttinn. Færa á þá daga þegar viðkomandi var frá störfum vegna leyfis án launa. Rangt er að lækka starfshlutfall.
Iðgjaldafríir sjóðfélagar
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjald til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans af dagvinnulaunum, persónuuppbót og orlofsuppbót niður. Þó er sjóðfélaga, er gegnt hefur um lengri eða skemmri tíma hlutastarfi, heimilt að greiða áfram iðgjald til sjóðsins af dagvinnulaunum sínum allt að því marki að jafngildi iðgjaldagreiðslu af launum fyrir fullt starf í 32 ár. Sjóðfélagi, sem kýs að taka lífeyri samkvæmt 95 ára reglunni, þarf að greiða áfram að 95 ára markinu.
Þó að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falli niður vegna greiðslutíma í 32 ár eða skv. 95 ára reglunni, á að greiða áfram iðgjald til B-deildar af vaktaálagi. Eftir að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falla niður skv. framansögðu greiðir launagreiðandi 12% iðgjald til sjóðsins af sömu launum.
Frágangur skilagreina til B-deildar og greiðsla iðgjalda
Skilagrein skal vera merkt B-deild og með viðeigandi SAL númeri. Kennitala B-deildar er 430269-6669.
Iðgjöldum ber að skila til sjóðsins eigi síðar en 14 dögum frá útborgun launa. Þetta á við hvort sem um fyrirfram- eða eftirágreidd laun er að ræða. Sé ekki greitt innan tilgreinds gjaldfrests reiknast dráttarvextir.
LSR býður upp á að krafa myndist sjálfkrafa í heimabanka. Sendið beiðni á idgjold@lsr.is sé þess óskað.