Séreign til fasteignakaupa
Hægt er að ráðstafa séreign skattfrjálst inn á húsnæðislán og þeir sem huga að íbúðakaupum geta fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í fyrstu greiðslu.
Athugið að gera þarf séreignarsamning og byrja að greiða séreign sem fyrst til að hægt sé að nota séreignina síðar í tengslum við fasteignakaup. Ekki er hægt að greiða séreign afturvirkt af launum.
Ráðstöfun á séreignarsparnaði skattfrjálst vegna fasteignakaupa skiptist í þrennt:
- Séreign inn á lán – úrræði frá 01.07.2014, gildir til 31.12.2024
- Húsnæðissparnaður – úrræði frá 01.07.2014, gildir til 31.12.2024
- Stuðningur við kaup á fyrstu fasteign.
Sækja verður um inn á vef ríkisskattstjóra, www.leidretting.is. Á þeim vef er einnig hægt að sækja góðar leiðbeiningar og frekari upplýsingar.
Umfjöllun um fyrstu fasteign á Lífeyrismál.is
Sérstaða LSR miðað við aðra umsýsluaðila er að hjá Séreign LSR eru engar þóknanir teknar eða umsýslugjöld. Eignastýring LSR sér um ávöxtun eigna samhliða öðrum eignum LSR, stærsta lífeyrissjóðs landsins. Varfærni og reynsla einkennir eignastýringu fjárfestingarleiða Séreignar LSR.
1. Séreign inn á lán
Iðgjöld í séreign færast með reglubundnum hætti inn á höfuðstól húsnæðislána til lækkunar.
- Hámarksfjárhæð hjá hjónum og þeim sem uppfylla skilyrði til samsköttunar er sameiginleg og getur mest orðið samtals kr. 750.000 á ári, þar af kr. 500.000 af framlagi sjóðfélaga.
- Hámarksfjárhæð hjá einhleypum getur mest orðið samtals kr. 500.000 á ári, þar af kr. 333.000 af framlagi sjóðfélaga.
Varðandi sjálfar greiðslurnar inn á lán viljum við benda á eftirfarandi:
- Séreignarsjóðir reyna eftir fremsta megni að greiða inn á lánið á þeim tíma sem að greiðslan getur farið öll inn á höfuðstól.
- Greiðslugluggi er það tímabil innan mánaðar sem greiðsla getur farið að sem mestu leyti inn á höfuðstól lánsins. Upphafsdagur greiðsluglugga og lokadagur er ákvarðaður af lánastofnun og fylgir gjald- og eindaga lánsins, því getur tímabilið sem þeir spanna verið mislangt milli lánastofnana. Lífeyrissjóðir skila greiðslum innan þessa tíma.
- Ef lán er greiðslujafnað þá greiðist séreign fyrst inn á greiðslujöfnunarreikning lánsins, en hann er hluti af höfuðstól lánsins. Vegna þess að ekki er greitt af stöðunni á greiðslujöfnunarreikningnum fyrr en síðar þá kemur lækkunin á greiðslubyrði ekki fram strax þótt að höfuðstóll lánsins lækki.
2. Húsnæðissparnaður
Sá sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota getur átt rétt á að taka út iðgjöld úr séreignarsjóði sem greidd hafa verið á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 31. desember 2024, upp að ákveðnu marki, ef hann festir kaup á slíku húsnæði í síðasta lagi 31. desember 2024.
- Hámarksúttekt hjá hjónum eða þeim sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, að öllum skilyrðum uppfylltum, er samtals kr. 750.000 á ári.
- Hámarksúttekt hjá einhleypum, að öllum skilyrðum uppfylltum, er samtals kr. 500.000 á ári.
3. Stuðningur við kaup á fyrstu fasteign
Þann 1. júlí 2017 tóku í gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Lögin heimila þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign að nota séreignarsparnað í 10 ár til að safna skattfrjálst upp í útborgun eða til að greiða niður höfuðstól á sambærilegan og í séreign inn á lán. Einnig verður heimilt að greiða skattfrjálst inn á afborganir óverðtryggðra lána sem tekin eru vegna kaupanna.
Úrræðið skiptist í þrjár leiðir en sjóðfélagi hefur jafnframt val um að blanda þeim saman:
- Nýta má iðgjöld sem greidd hafa verið í séreignarsparnað frá 1. júlí 2014 og fram að íbúðarkaupum skattfrjálst til útborgunar við fyrstu kaup.
- Nýta má iðgjöld í séreignarsparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu inn á höfuðstól íbúðarláns sem tekið var vegna kaupanna.
- Nýta má iðgjöld í séreignarsparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu afborgana af óverðtryggðu láni.
Hver einstaklingur getur nýtt allt að 500 þúsund krónur á ári af séreignarsparnaði til kaupa á fyrstu fasteign. Greiðslur hvers einstaklings inn á lán geta því numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili.
-
Flýtileiðir
- Samningur um séreignarsparnað Krefst rafrænna skilríkja í síma