Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

Skipting ellilífeyris milli hjóna

26. ágúst 2021

Reglulega skapast umræða um skiptingu ellilífeyris milli hjóna. Ýmsir kostir eru í stöðunni fyrir sjóðfélaga og getur það verið mjög mismunandi eftir aðstæðum hvaða leið hentar hverjum og einum.

Nú síðast vakti Árni Sigfússon, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, athygli á þessu þegar hann sagði frá því á Facebook að hann og kona hans hefðu jafnað lífeyrisréttindi sín. Það væri þeim sanngirnismál, því á starfsævinni hefði hann greitt reglulega iðgjöld í lífeyrissjóði á meðan kona hans, Bryndís Guðmundsdóttir, hefði síður verið virk á almennum vinnumarkaði en meira beitt sér við samfélagsleg verkefni með takmörkuðum tekjum auk þess að leggja meira af mörkum við uppeldi barna þeirra.

Í þeirra tilviki virðist skipting réttinda hafa verið góður kostur og í kjölfar umræðunnar er við hæfi að fara yfir þá kosti sem standa hjónum til boða þegar kemur að skiptingu lífeyris.

Skipting greiðslna

Hægt er að skipta ellilífeyrisgreiðslum eftir að þær eru hafnar. Þetta hentar sérstaklega til að jafna skattbyrði eða við þær aðstæður þegar hjón geta ekki lengur haldið saman heimili sökum heilsufars.

Þegar greiðslum er skipt með þessum hætti myndast ekki sjálfstæður réttur fyrir maka og því falla lífeyrisgreiðslur til maka niður ef sjóðfélagi fellur frá á undan. Að sama skapi fær sjóðfélagi lífeyrisgreiðslur sínar aftur að fullu ef maki fellur frá á undan. Hægt er að sækja um að skipta greiðslum hvenær sem er og eins má fella niður greiðsluskiptinguna hvenær sem er.

Skipting réttinda

Hægt er að skipta ellilífeyrisréttindum milli þeirra sem hafa verið í hjúskap, óvígðri sambúð eða staðfestri samvist. Sú leið hentar oft vel þegar munur á ellilífeyrisréttindum hjóna er mikill og makalífeyrisréttindi í lífeyrissjóði þess sem á hærri réttindi er lítill. Hægt er að skipta allt að 50% lífeyrisréttinda og verður skipting að vera jöfn, gagnkvæm og ná til allra lífeyrissjóða sem sjóðfélagi og maki eiga réttindi í. Gera þarf samning um skiptingu réttinda fyrir 65 ára aldur.

Þegar samið hefur verið um skiptingu myndast sjálfstæður réttur til eftirlauna hjá maka, sem þýðir að þótt sjóðfélagi falli frá heldur maki áfram lífeyrisréttindum sínum ævilangt. Athugið að lífeyrisréttindi sjóðfélaga endurheimtast hins vegar ekki ef maki fellur frá - þ.e. ef búið er að skipta lífeyrisréttindum gengur sú skipting ekki til baka við andlát.

Einnig er gott að hafa í huga að skiptingin á einungis við um þau réttindi sem hafa myndast á meðan á sambúð aðila stendur, þ.e. ekki er hægt að skipta réttindum sem mynduðust áður en hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hófust. Skiptingin hefur jafnframt ekki áhrif á maka- og örorkulífeyri - slíkar greiðslur haldast eins og engin skipting hafi átt sér stað.

Frekari upplýsingar

Þessu til viðbótar er einnig gott að hafa í huga að skipting bæði greiðslna og réttinda getur haft áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Á vef TR má finna reiknivél þar sem hægt er að sjá áætlaðar greiðslur TR út frá öðrum tekjum.

Eins og sjá má er að mörgu að huga við skiptingu ellilífeyrisréttinda og -greiðslna. Nánari upplýsingar má finna á síðum LSR um skiptingu milli maka, en þar að auki eru ráðgjafar LSR ávallt reiðubúnir til að veita ráðgjöf um þessi mál.

Landssamtök lífeyrissjóða - Nánari umfjöllun um skiptingu ellilífeyris milli hjóna