Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

LSR tekur þátt í 580 milljarða fjárfestingu í umhverfisvænum verkefnum

2. nóvember 2021

LSR er einn þrettán íslenskra lífeyrissjóða sem ætla að fjárfesta fyrir 4,5 milljarða bandaríkjadala (um 580 milljarða króna) í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030.

Sjóðirnir hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um verkefnið gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) sem var formlega kynnt í morgun á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fram fer í Glasgow í Skotlandi. Íslensku lífeyrissjóðirnir bætast með þessu í hóp fjölda norrænna lífeyrissjóða sem hafa gefið út sambærilegar yfirlýsingar á síðustu tveimur árum.

Með yfirlýsingunni nú staðfesta íslensku sjóðirnir þrettán vilja til að stórauka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þar er meðal annars horft til ákvæða Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjóðirnir munu meðal annars horfa til verkefna sem nýta jarðvarma en einnig er stefnan að styðja við aukna notkun annarra sjálfbærra orkugjafa með það að markmiði að stuðla að aukinni notkun hreinnar orku í samgöngum og atvinnustarfsemi.

Sjóðirnir sem taka þátt í verkefninu auk LSR eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífsverk, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, SL lífeyrissjóður og Stapi lífeyrissjóður.

CIC mun fylgjast með og mæla hvort þátttakendur í verkefninu standi við yfirlýst markmið og birta niðurstöður sínar árlega.

Um Climate Investment Coalition

Climate Investment Coalition (CIC) eru alþjóðleg samtök en stofnaðilar eru danska umhverfis-, orku og veituráðuneytið, The Institutional Investors Group on Climate Change, Insurance & Pension Denmark (samtök 92 tryggingafélaga og lífeyrissjóða í Danmörku) og World Climate Foundation (samtök sem vinna að orkuskiptum og framþróun lágkolefnishagkerfisins).

Markmið CIC er að stuðla að aukinni fjárfestingu í hreinni orku og öðrum umhverfislausnum, svo sem nýtingu jarðhita, vindorku, sólarorku, bættrar orkunýtingar í byggingum og bættri tækni við flutning raforku. Fyrsta skrefið í þá átt var skuldbinding danskra lífeyrissjóða árið 2019 til að fjárfesta fyrir um 50 milljarða bandaríkjadala (6.500 milljarða kr.) í grænum lausnum fram til ársins 2030.

Í október í fyrra hófst vinna CIC við að fá stofnanafjárfesta, yfirvöld og aðra hagaðila annars staðar á Norðurlöndunum til að skuldbinda sig á svipaðan hátt. Sú vinna fór af stað eftir að norrænir forsætisráðherrar ályktuðu á vettvangi Norræna ráðherraráðsins að þeir myndu hvetja til slíkra fjárfestinga.