LSR hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar
18. október 2021
LSR er í hópi þeirra sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2021, en alls fá 53 fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir viðurkenninguna í ár. Viðurkenningin er veitt þeim þátttakendum í verkefninu sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem hvetur til aukins jafnréttis á vinnumarkaðnum, sér í lagi í stjórnunarstöðum. Við veitingu viðurkenningarinnar var markmið Jafnvægisvogarinnar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi haft til hliðsjónar.
Það var Eliza Reid sem kynnti viðurkenningarnar á stafrænni ráðstefnu FKA þann 14. október sem var m.a. send út á vef RÚV. Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, tók við viðurkenningunni fyrir hönd sjóðsins.
Þetta er þriðja árið í röð sem sjóðurinn hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, sem er einstaklega ánægjulegt. LSR fagnaði jafnframt nýlega öðrum mikilvægum áfanga í jafnréttismálum þegar sjóðurinn hlaut jafnlaunavottun.