Engar skerðingar vegna greiðslna úr Séreign LSR
22. september 2022
Vegna umræðu um breytingar á lögum um lífeyrissjóði sem taka munu gildi um næstu áramót er rétt að taka fram að þessar lagabreytingar hafa engin áhrif á Séreign LSR. Greiðslur úr Séreign LSR munu eftir sem áður ekki leiða til skerðinga á greiðslum Tryggingastofnunar.
Eftir að lagabreytingarnar taka gildi um næstu áramót munu greiðslur úr svokallaðri tilgreindri séreign, eða svipuðum séreignarlífeyri sem dreginn er af skylduiðgjaldi, leiða til skerðinga á greiðslum Tryggingastofnunar. Þar sem Séreign LSR er ekki dregin af skyldubundnu iðgjaldi, heldur er viðbót við skyldubundið iðgjald, hafa þessar lagabreytingar ekki áhrif á hana. Sjóðfélagar sem eiga séreignarsparnað hjá LSR þurfa því ekki að bregðast við með neinum hætti.
Hjá LSR hefur skyldubundið lífeyrissjóðsiðgjald, sem er 15,5% af launum, hingað til farið óskert í almennan samtryggingarlífeyri. Hann veitir lífeyrisréttindi sem gilda til æviloka auk þess að veita rétt til örorku-, maka- og barnalífeyris. Sjóðurinn hefur ekki boðið upp á að hluti skylduiðgjaldsins renni í tilgreinda séreign eða svipaðan lífeyri af skylduiðgjaldinu og því verða engir núverandi sjóðfélagar fyrir áhrifum af nýju lögunum.
Þar sem lögin veita hins vegar skýrari lagaramma um tilgreinda séreign er nú í gangi endurskoðun á lífeyrisframboði LSR og má búast við að tekin verði ákvörðun um hvort og hvenær LSR muni bjóða upp á tilgreinda séreign á næstu vikum. Allar breytingar verða kynntar hér á lsr.is og víðar þegar þær liggja fyrir.