Fjárfestingarstefnur deilda LSR leggja línurnar fyrir góða dreifingu eigna, bæði dreifingu á ólíka eignaflokka verðbréfa og innlenda og erlenda markaði sem dró verulega úr sveiflum á ávöxtun.
Mikil lækkun var á hlutabréfamörkuðum heimsins í febrúar og mars, þó einkum á erlendum mörkuðum. Á móti veiktist gengi íslensku krónunnar sem dró úr verðlækkunum, í krónum talið. Á sama tíma hækkuðu innlend skuldabréf að markaðsvirði og því má segja að heildaráhrifin í eignasafni LSR hafi verið minni en óttast var í upphafi faraldursins.
Eftir viðsnúning á erlendum hlutabréfamörkuðum í maí var verðmæti eignasafna LSR orðið hærra en það var í upphafi árs og ávöxtun á fyrstu fimm mánuðum ársins var rúm 3% fyrir sjóðinn í heild sinni. Hver langtímaáhrifin verða er þó enn óljóst þar sem hagkerfi heimsins eru enn að jafna sig eftir viðburði síðustu mánaða og mikil óvissa ríkir á verðbréfamörkuðum á heimsvísu.