Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

Afkoma LSR á árinu 2017

27. apríl 2018

Afkoma LSR var góð á árinu 2017 en tekjur af fjárfestingum sjóðsins námu 55,4 milljörðum króna. Nafnávöxtun LSR var 7,6% sem svarar til 5,6% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin var 5,6%. Heildareignir LSR voru 799 milljarðar króna í árslok 2017.

Góð eignadreifing er í verðbréfasafni LSR sem endurspeglar góða áhættudreifingu. Í árslok 2017 voru 56,7% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 32,4% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 12% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 24,9% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 6,4% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 28,8% í árslok.

Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 15% og nafnávöxtun innlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 1,2% á árinu. Nafnávöxtun skuldabréfa var 6,8% sem svarar til 5% raunávöxtunar. 

Á árinu 2017 fengu að meðaltali 21.142 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 48,5 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 30.809 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 31 milljarði króna.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 263,6 milljarða króna. Hátt í helmingur þeirrar hækkunar má rekja til ávöxtunar sjóðsins því að á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 122,3 milljörðum króna. Í árslok 2016 lagði ríkið til fjárhæð sem nemur 117,2 milljörðum króna vegna breytinga á lögum um A-deild LSR. Á árinu 2017 lagði ríkið því til viðbótar fjárhæð sem nemur 24 milljörðum króna sem greiðslu inn á lífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR.

Fréttabréf LSR