Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

10,9% hrein raunávöxtun hjá LSR á árinu 2020

15. apríl 2021

Afkoma LSR á árinu 2020 var afar góð þrátt fyrir krefjandi aðstæður, en nafnávöxtun sjóðsins var 14,9% og hrein raunávöxtun 10,9%. Heildareignir LSR voru um 1.168 milljarðar króna í árslok og voru hreinar fjárfestingartekjur um 152 milljarðar króna á árinu.

Þetta kemur fram í ársreikningi LSR, en stjórn sjóðsins samþykkti hann á fundi sínum þann 14. apríl. Meðal annarra niðurstaðna er að hrein raunávöxtun A-deildar var 10,6% á árinu, B-deildar 12% og hjá Séreign LSR var Leið I með 13,3% raunávöxtun, Leið II með 8,3% og Leið III með 0,6%.

Fimmtungur alls lífeyriskerfisins
LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins, en eignir sjóðsins nema u.þ.b. fimmtungi af heildareignum allra íslenskra lífeyrissjóða. Til samanburðar má einnig nefna að heildareignir sjóðsins við árslok jafngiltu u.þ.b. 40% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm ára var 6,4% og síðustu tíu ára 6,5%. Á árinu greiddi sjóðurinn lífeyri til 27.094 sjóðfélaga að meðaltali og námu greiðslurnar alls rúmum 68,9 milljörðum króna. Þá greiddu að meðaltali 32.837 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu.

Góð ávöxtun hlutabréfa
Miklar verðsveiflur voru á mörkuðum á síðasta ári og setti óvissan af völdum heimsfaraldursins mark sitt á árið í heild. Engu að síður skiluðu jafnt erlend sem innlend hlutabréf í eigu LSR góðri ávöxtun þegar upp var staðið. Við lok ársins var verðbréfaeign sjóðsins í erlendum gjaldmiðlum 40,9%, en innlendar eignir námu 59,1%.

Vextir voru áfram lágir á árinu og af þeim sökum hefur hlutur skuldabréfa í eignasafni LSR lækkað nokkuð, úr 23,5% árið 2019 í 19,6% á síðasta ári. Að sama skapi jókst hlutfall hlutabréfa úr 13,6% í 14,9% og hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða úr 27,3% í 29,6%. Hlutfall skuldabréfa með fasteignaveðum lækkaði úr 13,6% í 11,2% milli ára.

Fréttabréf LSR