Geymd réttindi
Sjóðfélagar sem hætt hafa að greiða í sjóðinn eiga geymdan rétt.
Hafir þú einhvern tímann greitt iðgjald til sjóðsins en hætt því án þess að hefja töku lífeyris áttu geymdan rétt hjá sjóðnum. Ef þú hefur greitt iðgjald í meira en 3 ár er lífeyrir verðtryggður og fylgir meðalbreytingum á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Hafir þú látið af þeim störfum fyrir árslok 1996 er þó miðað við þau laun, sem starfinu fylgdu til ársloka 1996, en eftir það hækka viðmiðunarlaun samkvæmt meðaltalsreglu.
Geymd réttindi þeirra sjóðfélaga, sem greitt hafa skemur en í þrjú ár, eru óverðtryggð. Eftir að taka lífeyris hefst tekur hann meðalbreytingum. Ef um er að ræða verulega lág réttindi er boðið upp á eingreiðslu lífeyris.
Eigir þú geymd réttindi í B-deild og greiðir í A-deild af starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði B-deildar um ráðningu, áttu ekki rétt á töku eftirlauna úr B-deild á meðan þú gegnir því starfi.
Lífeyri frá B-deild er í fyrsta lagi hægt að fá greiddan frá 65 ára aldri (nema um 95 ára reglu sé að ræða). Ef sótt er um geymd réttindi eftir það fást þau greidd aftur í tímann, aftur að 65 ára afmælisdegi. Að hámarki eru þó greidd 4 ár aftur í tímann.