32 ára og 95 ára reglan

Iðgjaldafrí réttindaávinnsla

Þegar þú hefur greitt iðgjald í sjóðinn í 32 ár hefur þú val um að 4% hlutur þinn í iðgjaldinu falli niður og launagreiðandi greiði hlut beggja sem eru samtals 12%. Þeir sem þetta kjósa geta hafið töku lífeyris í fyrsta lagi 65 ára. Ef þú getur lagt saman iðgjaldagreiðslutíma í sjóðnum og lífaldur og náð 95 árum, áður en þú verður 64 ára, falla iðgjaldagreiðslur jafnframt niður og getur þú hafið töku lífeyris fyrr. Um þessar reglur þarf af velja. 

Hafir þú starfað hjá ríkisstofnun á Norðurlöndunum gætir þú átt rétt á því að sá tími telji upp í reglu. Sjá nánari upplýsingar um norðurlandasamninga hér.

Þegar 32 ára eða 95 ára reglu hefur verið náð og önnur hvor valin, verður sjóðfélagi iðgjaldafrír og greiðir launagreiðandi hans hlut. Sjóðfélagi hefur þá val um að greiða aukalega allt að 4% í séreignarsjóð og ávaxta þar.

32 ára reglan

Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans niður og frá sama tíma greiðir launagreiðandinn 12% af þeim launum sem iðgjöld reiknast af. Þeir sjóðfélagar sem velja almennu regluna verða því iðgjaldafríir upp frá því en ávinna sér 1% réttindi á ári, miðað við fullt starf, í stað 2% áður.

Þeir sem velja 32 ára regluna geta í fyrsta lagi hafið töku lífeyris við 65 ára aldur. Eftir að lífeyristökualdri er náð og sjóðfélagi lætur ekki af störfum, ávinnast 2% réttindi á ári að nýju miðað við fullt starf.

Dæmi: Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára og greiðir iðgjöld af fullu starfi í 32 ár eða til 57 ára aldurs, ávinnur sér 64% lífeyrisrétt.

  • Frá 57 ára aldri til 65 ára aldurs bætir hann við sig 1% á ári eða alls 8%.
  • Láti sjóðfélaginn af störfum 65 ára hefur hann áunnið sér 72% lífeyrisrétt.
  • Starfi hann áfram til 70 ára aldurs bætir hann 2% við rétt sinn fyrir hvert ár frá 65 ára aldri til 70 ára aldurs eða samtals 10% fyrir þessi ár. Lífeyrisréttur við 70 ára aldur verður þá alls 82%.
  • Starfi hann áfram eftir að 70 ára aldri er náð, ávinnast áfram 2% á ári fyrir fullt starf.

Allar ofangreindar prósentutölur miðast við 100% starf.

95 ára reglan

Með 95 ára reglu er átt við samanlagðan iðgjaldagreiðslutíma og lífaldur. 95 ára regla gerir sjóðfélögum kleift að hefja töku lífeyris fyrir 65 ára aldur. Þeir, sem ná þessu marki áður en 64 ára aldri er náð, verða iðgjaldafríir og geta hafið töku lífeyris samkvæmt þessari reglu en þó aldrei fyrr en þeir hafa náð 60 ára aldri. Þeir, sem ná 95 ára reglu fyrr, verða að halda áfram í starfi sem veitir þeim aðild að B-deild LSR þar til 60 ára aldri er náð og/eða fram að þeim tíma er þeir hefja töku lífeyris.

Hámarksréttindi þegar 95 ára reglu er náð eru 64%. Haldi sjóðfélagi áfram starfi eftir að reglu er náð bætir hann við sig 2% fyrir hvert ár í fullu starfi. Hafi sjóðfélagi náð 64% réttindum áður en reglu er náð halda iðgjaldagreiðslur áfram til sjóðsins fram að reglumarki. 

Dæmi: Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára, nær 95 ára markinu þegar hann verður 60 ára. Hann greiðir þá í sjóðinn í 35 ár (60+35=95).

  • Sjóðfélagi þessi hefur rétt á að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur. Áunninn lífeyrisréttur verður þá 64%.
  • Starfi hann áfram til 65 ára aldurs verður rétturinn 74%.
  • Starfi hann áfram til 70 ára aldurs verður rétturinn 84%.
  • Starfi hann áfram eftir að 70 ára aldri er náð, ávinnast áfram 2% á ári fyrir fullt starf.

Allar ofangreindar prósentutölur miðast við 100% starf.

Flýtileiðir