Aukinn sveigjanleiki með tilgreindri séreign
Þú getur valið að láta allt að 3,5% af skyldubundnu lífeyrisiðgjaldi þínu renna í tilgreinda séreign. Þannig geturðu m.a. fengið meiri sveigjanleika í kringum starfslok, aukið erfanlega eign í lífeyrissparnaði og mögulega létt undir við fyrstu fasteignakaup.
Ef þú velur að nýta tilgreinda séreign lækka réttindi þín til ævilangra eftirlauna og örorkulífeyris. Því er mikilvægt að hver og einn meti vandlega hvort tilgreind séreign sé góður kostur fyrir sig og vandi valið við vörsluaðila séreignarsparnaðar.
Tilgreind séreign hjá LSR er góður kostur
Séreignarsjóður LSR er öflugur og góður sjóður þar sem rekstrarkostnaði er haldið í lágmarki. Séreignardeild LSR hefur það eina markmið að skapa sem mest verðmæti fyrir sjóðfélaga og er ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir neina aðra en þá. Þannig er t.d. markaðs- og sölukostnaður séreignardeildar LSR svo til enginn.
Sjóðfélagar sem hefja greiðslu í tilgreinda séreign greiða engin upphafsgjöld og strax frá fyrstu iðgjaldagreiðslu byrjar inneignin að safnast upp. Þá er heldur ekki tekin þóknun við útgreiðslur á inneign, til dæmis vegna örorku eða aldurs eða vegna fyrstu fasteignakaupa. Forðastu aukakostnað og gjöld með því að vanda valið á vörsluaðila tilgreindrar séreignar.
Hvað er tilgreind séreign?
- Tilgreind séreign er hluti af lögbundnum lífeyrissparnaði, sem er 15,5% af launum
- Hægt er að láta allt að 3,5% af 15,5% skyldubundnu iðgjaldi renna í tilgreinda séreign
- Þegar þú greiðir í tilgreinda séreign lækkarðu framlagið í samtryggingu á móti
- Tilgreind séreign verður erfanleg einkaeign sjóðfélaga
- Tilgreinda séreign má nýta til greiðslu inn á fasteignalán vegna fyrstu íbúðarkaupa
- Greiðslur úr tilgreindri séreign koma til frádráttar greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins
Með tilgreindri séreign lækkar iðgjald í samtryggingu
Skyldubundið lífeyrisiðgjald þitt er 15,5% af launum og er sjálfgefið að það safnist að fullu í samtryggingu. Með henni færðu rétt til ævilangra eftirlauna, makalífeyris og örorkulífeyris og gætir jafnframt fengið svokallaðan framreikning í örorkulífeyri og makalífeyri, sem eru verðmæt réttindi, sérstaklega fyrir þá sem yngri eru.
Með tilgreindri séreign lækkar þú framlag þitt í samtryggingu og lætur þess í stað allt að 3,5% af launum renna í tilgreinda séreign. Þar með verður þessi hluti iðgjaldsins að þinni einkaeign en um leið lækka réttindi þín í samtryggingu.
Munurinn á samtryggingu og tilgreindri séreign
Tilgreind séreign | Samtrygging | |
Veitir eftirlaun til æviloka | Nei | Já |
Veitir örorkutryggingu | Nei | Já |
Veitir rétt til maka- og barnalífeyris | Nei | Já |
Framlag verður eign sjóðfélaga | Já | Nei |
Erfist samkvæmt erfðalögum | Já | Nei |
Hægt að ráðstafa við fyrstu fasteignakaup | Já | Nei |
Kemur til frádráttar á greiðslum frá TR | Já | Já |
Eiginleikar tilgreindrar séreignar
Tilgreind séreign getur verið góður kostur fyrir marga. Markmið hennar er meðal annars að auðvelda starfslok og auka sveigjanleika auk þess sem hana má nýta skattfrjálst við fyrstu fasteignakaup. Hún hentar samt ekki öllum og í sumum tilvikum fá sjóðfélagar meira fyrir iðgjöldin sín með því að láta þau renna að fullu í samtryggingu. Það á sérstaklega við sjóðfélaga A-deildar sem eru í jafnri réttindaávinnslu þar sem réttindaávinnslan er meiri en gengur og gerist. Þú getur séð hvort þú sért í jafnri eða aldurstengdri ávinnslu á Mínum síðum.
-
Iðgjöld í samtryggingu veita góða áfallavernd sem endist alla ævi. Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld í 3 ár gæti hann átt rétt á svokölluðum framreikningi, sem þýðir að ef til örorku eða andláts kemur er örorkulífeyrir eða makalífeyrir greiddur eins og ef sjóðfélagi hefði greitt iðgjöld til 65 ára aldurs. Verði sjóðfélagi fyrir örorku mjög ungur mun hann þannig fá lægri örorkulífeyrisgreiðslur hafi hann verið að greiða 12% launa í samtryggingu í stað 15,5%. Sama gildir fyrir makalífeyrisgreiðslur við fráfall hjá ungum sjóðfélaga.
Framreikningur fyrir þau ár sem sjóðfélagi fær örorkulífeyrisgreiðslur verður jafnframt að eftirlaunaréttindum. Áfallaverndin tryggir því einnig sjóðfélaga eftirlaun á meðan hann er ekki á vinnumarkaði vegna óvinnufærni og getur ekki aflað sér réttinda í samtryggingu eða séreign.
-
- Tilgreinda séreign er hægt að taka út frá 62 ára aldri, óháð því hvenær þú ferð á eftirlaun. Þannig getur þú stýrt lífeyrisgreiðslum betur, t.d. með því að:
- - lækka starfshlutfall eftir 62 ára aldur og nýta tilgreinda séreign til að draga úr tekjulækkun.
- - hækka tekjur þínar fyrstu árin eftir starfslok.
- Tilgreind séreign er erfanleg.
- Tilgreind séreign getur mögulega nýst til fyrstu íbúðarkaupa eða sem skattfrjálsar greiðslur inn á fasteignalán vegna fyrstu íbúðarkaupa.
-
- Tilgreind séreign klárast á endanum, en eftirlaun greiðast til æviloka.
- Þú lækkar iðgjald þitt í samtryggingarsjóð sem nemur greiðslum í tilgreinda séreign. Þar sem tilgreind séreign felur ekki í sér áfallavernd vegna örorku eða andláts þá:
- - lækka eftirlaunin sem þú færð úr samtryggingu til æviloka.
- - lækkar sá lífeyrir sem þú átt rétt á ef þú verður fyrir örorku einhvern tímann á lífsleiðinni.
- - lækkar sá lífeyrir sem maki þinn ætti rétt á við fráfall þitt.
Munurinn á tilgreindri séreign og hefðbundinni séreign
Tilgreind séreign | Hefðbundin séreign | |
Hluti af skylduiðgjaldi | Já | Nei |
Hlutfall iðgjaldagreiðslu | Hægt að velja milli 1,5%, 2,5% eða 3,5% | Launþegi: 2% - 4% Launagreiðandi: 2% |
Útgreiðslureglur | Í jöfnum greiðslum frá 62-67 ára Laus að fullu frá 67 ára |
Heildarfjárhæð laus frá 60 ára aldri |
Hægt að ráðstafa inn á fasteignalán? | Já, fyrir kaup á fyrstu fasteign. | Já, fyrir kaup á fyrstu fasteign. |
Kemur til frádráttar á greiðslum frá TR? | Já | Nei |
Fjárfestingarheimildir | Sömu reglur og gilda fyrir samtryggingarlífeyri | Rýmri reglur en fyrir samtryggingarlífeyri |
Erfist samkvæmt erfðalögum | Já | Já |