Fara á efnissvæði
Mínar síður

Útgreiðslur frá 60 ára aldri

Séreign er laus til útgreiðslu frá 60 ára aldri, svo lengi sem a.m.k. tvö ár eru liðin frá fyrstu innborgun. Þú getur svo hagað útgreiðslum eins og þér hentar. Hægt er að fá ákveðna upphæð greidda mánaðarlega, fá stakar greiðslur eftir hentugleika eða jafnvel fá alla upphæðina greidda í einu lagi.

Tekjuskattur er dreginn af útborgunum. Skynsamlegt gæti því verið að hafa skattþrepin í huga og dreifa útgreiðslum þannig að minni líkur séu á að þær falli í efri skattþrep.

Sótt er um útgreiðslur í gegnum Mínar síður. Mánaðarlegar greiðslur eru afgreiddar 1. hvers mánaðar, en stakar greiðslur eru jafnan afgreiddar næsta föstudag eftir að umsókn er afgreidd. Einungis er þó hægt að fá eina greiðslu úr séreign í hverjum mánuði.

Hvenær fæst séreign greidd?

  • Frá 60 ára aldri sjóðfélaga
  • Við örorku sjóðfélaga
  • Til erfingja við andlát sjóðfélaga

Útgreiðsla vegna andláts

Séreignarsparnaður erfist og er laus til útborgunar við andlát sjóðfélaga. Skipting milli maka og barna er samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Við útborgun er tekjuskattur dreginn af séreignarsparnaði en ekki erfðafjárskattur. Ef lögerfingjar eru ekki til staðar rennur séreignarsparnaðurinn inn í dánarbú.

Við andlát sjóðfélaga þurfa erfingjar að sækja um skiptingu séreignar. Að því loknu eiga þeir kost á að geyma inneignina og ávaxta áfram eða sækja um útgreiðslu.

Umsókn um skiptingu séreignar

Útgreiðsla vegna örorku

Ef sjóðfélagi er úrskurðaður með örorku fyrir 60 ára aldur er heimilt að fá séreignarsparnað greiddan. Inneign er þá dreift jafnt á 7 ár miðað við 100% örorku. Ef örorka er metin minni en 100% lækkar árleg greiðsla í sama hlutfalli og útborgunartíminn lengist sem því nemur.

Sjóðfélagi sem hefur öðlast rétt til útborgunar vegna örorku getur óskað eftir útborgun með eingreiðslu ef inneign er undir ákveðinni verðtryggðri viðmiðunarfjárhæð.

Viðmiðunarfjárhæð fyrir eingreiðslu séreignar vegna örorku:

1.829.107 kr.

í janúar 2025