Fara á efnissvæði
Mínar síður

Séreign til fasteignakaupa

Um nokkurt skeið hefur verið hægt að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán upp að ákveðnu marki og verður það heimilt a.m.k. til ársloka 2025. Jafnframt geta þau sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign geta fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í fyrstu greiðslu. Það úrræði er ótímabundið og gildir einnig fyrir tilgreinda séreign.

Ráðstöfun á séreignarsparnaði skattfrjálst vegna fasteignakaupa skiptist í þrennt:

  1. Séreign inn á lán – gildir til 31.12.2025
  2. Húsnæðissparnaður – gildir til 31.12.2025
  3. Stuðningur við kaup á fyrstu fasteign – ótímabundið

Ítarlegar upplýsingar og umsókn má finna á vef ríkisskattstjóra.

Nánar á vef skattsins
  • Iðgjöld í séreign færast með reglubundnum hætti inn á höfuðstól húsnæðislána til lækkunar.

    • Hámarksfjárhæð hjá hjónum og þeim sem uppfylla skilyrði til samsköttunar er sameiginleg og getur mest orðið samtals kr. 750.000 á ári, þar af kr. 500.000 af framlagi sjóðfélaga.
    • Hámarksfjárhæð hjá einhleypum getur mest orðið samtals kr. 500.000 á ári, þar af kr. 333.000 af framlagi sjóðfélaga.
  • Sá sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota getur átt rétt á að taka út iðgjöld úr séreignarsjóði sem greidd hafa verið á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 31. desember 2025, upp að ákveðnu marki, ef viðkomandi festir kaup á slíku húsnæði í síðasta lagi 31. desember 2025.

    • Hámarksúttekt hjá hjónum eða þeim sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, að öllum skilyrðum uppfylltum, er samtals kr. 750.000 á ári. 
    • Hámarksúttekt hjá einhleypum, að öllum skilyrðum uppfylltum, er samtals kr. 500.000 á ári. 
  • Þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign er heimilt að nýta séreignarsparnað sem safnað hefur verið í allt að 10 ár skattfrjálst upp í útborgun eða til að greiða niður höfuðstól. Einnig verður heimilt að greiða skattfrjálst inn á afborganir óverðtryggðra lána sem tekin eru vegna kaupanna. 

    Úrræðið skiptist í þrjár leiðir en sjóðfélagi hefur jafnframt val um að blanda þeim saman:

    1. Nýta má iðgjöld sem greidd hafa verið í séreignarsparnað frá 1. júlí 2014 og fram að íbúðarkaupum skattfrjálst til útborgunar við fyrstu kaup.
    2. Nýta má iðgjöld í séreignarsparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu inn á höfuðstól íbúðarláns sem tekið var vegna kaupanna.
    3. Nýta má iðgjöld í séreignarsparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu afborgana.
  • Hægt er að nýta tilgreinda séreign við kaup á fyrstu íbúð eða sem greiðslu inn á lán vegna fyrstu íbúðarkaupa samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Á vef Skattsins má finna nánari upplýsingar um fyrstu íbúðarkaup.

    • Hámarksgreiðslur á ári hjá sambúðarfólki eru 750.000 kr. en 500.000 kr. hjá einstaklingum.
    • Ef sjóðfélagi safnar í hefðbundna séreign koma þá greiðslur úr tilgreindri séreign einungis til viðbótar ef heimildin er ekki fullnýtt.

    Greiðslur tilgreindrar séreignar inn á lán ganga þannig fyrir sig að yfir árið er hefðbundinn séreignarlífeyrissparnaður greiddur reglulega inn á lánið. Ef hámarkinu er ekki náð eftir árið er tilgreind séreign notuð til að fullnýta heimildina.

    Greiðsla tilgreindrar séreignar inn á lán eða vegna íbúðarkaupa mun því ekki eiga sér stað fyrr en eftir að árið er liðið og ljóst er að heimild sé ekki fullnýtt með hefðbundinni séreign.

     Hvenær nýtist tilgreind séreign inn á fasteignalán?

    Ef þú ert ekki að safna í hefðbundna séreign fer tilgreind séreign að fullu í greiðslur inn á fasteignalán þar til hámarksgreiðslu á ári er náð.

    Ef þú safnar 4% af launum í hefðbundna séreign (2% framlag launþega, 2% framlag vinnuveitanda) fullnýtir þú 500.000 kr. heimildina með hefðbundinni séreign ef þú ert með u.þ.b. 1.387.500 kr. eða meira í mánaðarlaun.

    Ef þú safnar hins vegar 6% í hefðbundna séreign (4% framlag launþega, 2% framlag vinnuveitanda) fullnýtir þú 500.000 heimildina ef þú ert með u.þ.b. 695.000 kr. eða meira í mánaðarlaun.