Fara á efnissvæði
Mínar síður

Skref fyrir skref

Hér finnurðu yfirlit helstu þætti sem vert er að hafa í huga þegar starfslok eru skipulögð. 

Sækja skref sem PDF
    • Hver eru mánaðarleg útgjöld heimilisins?
    • Hverjar eru núverandi tekjur heimilisins?
    • Hvað sérðu fram á að þurfa háar mánaðarlegar tekjur eftir að þú ferð á eftirlaun?
    • Áttu sparifé eða eignir sem þú ætlar að selja til að hafa meira milli handanna?
    • Ætlarðu að vinna áfram eftir að taka eftirlauna hefst?

    Svörin við spurningum á borð við þessar hjálpa þér að meta þá kosti sem standa þér til boða.

  1. Á Mínum síðum hjá LSR getur þú séð þau réttindi sem þú átt nú þegar, bæði hjá LSR og öðrum íslenskum lífeyrissjóðum, en þau eru sýnd miðað við 67 ára eftirlaunaaldur. Ef þú byrjar að taka eftirlaun fyrr færðu minna á mánuði, en meira ef þú bíður fram yfir 67 ára með að taka eftirlaun. Þessar upphæðir eru áætlaðar á Mínum síðum, ásamt því hversu mikil réttindi munu bætast við ef þú heldur áfram að greiða í LSR fram að eftirlaunatöku. Ekki þarf að hefja töku eftirlauna hjá öllum sjóðum samtímis.

    B-deild LSR er birt með öðrum hætti. Þar miðast eftirlaunaaldur við 65 ár og ef þú ert virkur sjóðfélagi í B-deild sérðu prósentutölu á Mínum síðum. Hún segir til um það hlutfall af viðmiðunarlaunum þínum sem þú hefur áunnið þér. Ef þú ert í fullu starfi miðast þessi viðmiðunarlaun oftast við þau dagvinnulaun sem þú ert með við starfslok. Ef þú átt geymd réttindi í B-deild birtast þau í flestum tilvikum sem krónutala á mánuði. Hér má finna nánari upplýsingar um B-deild.

    Ábending:

    Eftirlaunaréttindi A-deildar eru verðtryggð og breytast því í takt við verðbólgu bæði á meðan þú ert enn að safna réttindum og eftir að þú ferð á eftirlaun. Í B-deild breytast eftirlaunagreiðslur í takt við launaþróun hjá opinberum starfsmönnum.

  2. Þú getur séð inneign þína í séreignarsjóðum LSR á Mínum síðum, en ef þú átt séreignarsjóði víðar þarftu að kanna stöðu þeirra hjá viðkomandi banka eða lífeyrissjóði. Ef þú átt séreign hjá LSR getur þú áætlað inneignina út frá áframhaldandi greiðslum og reiknað mögulegar útgreiðslur.

    Séreign er laus til útborgunar frá 60 ára aldri og hefur þú fulla stjórn á útgreiðslunum. Tilgreind séreign er laus til útborgunar frá 62 ára aldri, en þá þarf að dreifa greiðslum jafnt fram að 67 ára aldri. Eftir 67 ára er tilgreind séreign laus til útborgunar að fullu.

    Ábending:

    Séreign er laus til útborgunar að fullu frá 60 ára aldri. En jafnvel þótt þú sért farin/n að fá greiðslur úr séreign ættirðu ekki að hætta að greiða í séreignarsjóðinn meðan þú ert enn að vinna, því þannig heldurðu áfram að fá 2% mótframlag vinnuveitanda alveg fram að starfslokum.

    Ábending:

    Mismunandi reglur gilda um greiðslur úr séreign og tilgreindri séreign þegar kemur að skerðingum á greiðslum frá TR. Greiðslur úr tilgreindri séreign koma til skerðingar á greiðslum TR en greiðslur úr hefðbundinni séreign skerða hins vegar ekki greiðslur TR.

  3. Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiðir ellilífeyri sem miðast við ákveðna mánaðarlega upphæð. Ýmiss konar tekjur, þar á meðal eftirlaunagreiðslur lífeyrissjóða og greiðslur úr tilgreindri séreign koma til skerðingar á greiðslum TR, og því er gott að skoða vandlega samspil tekna og ellilífeyrisgreiðslna TR. Með reiknivél TR geturðu gert þér góða grein fyrir mögulegum greiðslum frá stofnuninni út frá þínum aðstæðum.

    Ábending:

    Greiðslur úr hefðbundinni séreign koma ekki til skerðingar hjá TR en greiðslur úr tilgreindri séreign koma hins vegar til skerðingar.

    Ábending:

    Greiðslur frá TR eru áætlaðar fyrirfram og eru mjög tengdar öðrum tekjum sem þú færð, svo sem launatekjum, greiðslum lífeyrissjóða o.s.frv. Því skaltu vanda vel tekjuáætlun þína hjá TR á hverju ári svo þú þurfir ekki að endurgreiða ofgreiddan lífeyri. Mundu að gera ráð fyrir að eftirlaunagreiðslur eru verðtryggðar og hækka því í takt við verðbólgu á hverju ári.

  4. Iðgjöld til lífeyrissjóða eru undanskilin skatti, en í staðinn greiðir þú tekjuskatt af öllum greiðslum sem þú færð frá lífeyrissjóðum, hvort sem það eru eftirlaun, örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir eða séreignarsparnaður. Þegar þú byrjar að fá greiðslur frá lífeyrissjóðum er það á þína ábyrgð að veita réttar upplýsingar um staðgreiðslu og nýtingu persónuafsláttar. Á Mínum síðum getur þú stillt skattþrep og nýtingu persónuafsláttar hjá LSR.

    Sérstaklega er mikilvægt að hafa skattþrepin í huga við útgreiðslu séreignarsparnaðar. Inneign í séreign er að fullu laus til útgreiðslu frá 60 ára aldri og tilgreind séreign að fullu frá 67 ára aldri. En ef há upphæð er tekin út í einni greiðslu gæti það leitt til að stór hluti séreignarinnar reiknist í hæsta skattþrepi. Þess vegna getur verið skynsamlegt að taka séreignina út yfir lengri tíma í reglulegum greiðslum.

    • Gæti hentað þér að taka hálf eftirlaun til að byrja með? Það er hægt frá 60 ára aldri. Sjá nánar
    • Ef þú og maki þinn eruð undir 65 ára aldri gætuð þið viljað íhuga að skipta eftirlaunaréttindum milli ykkar. Sjá nánar
    • Ef þú átt réttindi hjá fleiri lífeyrissjóðum gæti einn kostur verið að taka eftirlaun hjá sumum þeirra fyrr en geyma aðra. Sumir byrja að taka lífeyri fyrr hjá sjóðum þar sem réttindi eru minni en hefja eftirlaunatöku hjá aðalsjóðnum sínum við starfslok.

    Ábending:

    Áttu nægilega lítil réttindi hjá einhverjum lífeyrissjóðum til að geta fengið þau greidd með eingreiðslu? Þá er gott að klára það áður en þú sækir um ellilífeyri hjá Tryggingastofnun til að útgreiðslan skerði ekki greiðslur TR. Reglurnar eru mismunandi milli sjóða, en hjá LSR er miðað við að greidd sé eingreiðsla í A-deild ef réttindi eru undir 3.232 kr. á mánuði og í B-deild ef réttindi eru undir 2.405 kr. á mánuði.

  5. Þegar þú hefur tekið saman heildarmyndina er næsta skref að gera áætlun. Hvenær viltu byrja að fá eftirlaun, hvenær viltu hætta að vinna og hvenær viltu fá greitt úr séreignarsjóði? Nýttu reiknivélar LSR og TR til að setja upp þína áætlun.

  6. Ef þú vilt hefja eftirlaunatöku hjá mörgum sjóðum samtímis er nóg fyrir þig að sækja um eftirlaun hjá þeim lífeyrissjóði sem þú greiddir síðast til og óska eftir að hann komi umsókninni áfram á aðra lífeyrissjóði.

    Hvað varðar séreign þarftu að sækja sérstaklega um útgreiðslu úr hverjum séreignarsjóði fyrir sig.

    Ef þú ætlar að sækja um ellilífeyri hjá TR þarf að sækja um það á vef TR

Umsóknir og eyðublöð

Sækja skref sem PDF
  1. Hvernig er umsóknarferlið?

    1. Þú fyllir út umsókn um eftirlaun hjá LSR eða öðrum lífeyrissjóði.
    2. Lífeyrissjóðurinn vinnur úr umsókninni og áframsendir á aðra lífeyrissjóði ef eftir því er óskað. Hver lífeyrissjóður hefur síðan samband í kjölfarið. Afgreiðslutími umsókna hjá LSR er jafnan 4-6 vikur, þannig að gott er að senda umsókn inn með góðum fyrirvara.
    3. Haft er samband við þig ef eitthvað er óljóst.
    4. Þú færð tilkynningu um lífeyrisúrskurð, þ.e. hver mánaðarleg eftirlaun þín verða, frá hverjum sjóði fyrir sig.
    5. Útgreiðsla hefst. Fyrsta útgreiðsla er jafnan afgreidd í lok þess mánaðar sem taka eftirlauna hefst.

    Gott að hafa í huga:

    Á að nota skattkort? Í hvaða skattþrep skal reikna eftirlaunin?

  2. Hvernig er umsóknarferlið?

    1. Ef þú ert eldri en 60 ára fyllir þú út umsókn um útborgun séreignarsparnaðar
    2. Þú getur valið að taka út ákveðna upphæð að eigin vali í eingreiðslu eða fá greidda ákveðna upphæð mánaðarlega.
    3. Afgreiðslutími umsókna er a.m.k. þrír virkir dagar, en útgreiðslur eru jafnan framkvæmdar á föstudögum og fyrsta hvers mánaðar. Einungis er hægt að fá eina greiðslu í hverjum mánuði.
  3. Hvernig er umsóknarferlið?

    Eftir að þú verður 62 ára getur þú sent inn umsókn um útborgun tilgreindrar séreignar

    Ef þú ert á bilinu 62 til 67 ára þarf að óska eftir jöfnum, mánaðarlegum útgreiðslum fram að 67 ára aldri

    Eftir 67 ára getur þú hagað útgreiðslum eins og þér hentar, t.d. valið að taka út ákveðna upphæð að eigin vali í eingreiðslu eða fá greidda ákveðna upphæð mánaðarlega.