Iðgjöld til lífeyrissjóða eru undanskilin skatti, en í staðinn greiðir þú tekjuskatt af öllum greiðslum sem þú færð frá lífeyrissjóðum, hvort sem það eru eftirlaun, örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir eða séreignarsparnaður. Þegar þú byrjar að fá greiðslur frá lífeyrissjóðum er það á þína ábyrgð að veita réttar upplýsingar um staðgreiðslu og nýtingu persónuafsláttar. Á Mínum síðum getur þú stillt skattþrep og nýtingu persónuafsláttar hjá LSR.
Sérstaklega er mikilvægt að hafa skattþrepin í huga við útgreiðslu séreignarsparnaðar. Inneign í séreign er að fullu laus til útgreiðslu frá 60 ára aldri og tilgreind séreign að fullu frá 67 ára aldri. En ef há upphæð er tekin út í einni greiðslu gæti það leitt til að stór hluti séreignarinnar reiknist í hæsta skattþrepi. Þess vegna getur verið skynsamlegt að taka séreignina út yfir lengri tíma í reglulegum greiðslum.