Ert þú með lánsrétt hjá LSR?
Þú sérð það með einföldum hætti á Mínum síðum.
Gott er að velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að taka lánið, eða hvort mögulega sé hægt að hafa það lægra. Í einhverjum tilvikum gæti til að mynda verið skynsamlegra að nýta sparifé eða eignir sem hægt er að selja í stað þess að taka hátt lán.
Hvenær viltu verða hætt/ur að greiða upp lánið?
Endurgreiðsla fasteignalána er langtímaverkefni og því er skynsamlegt að hugsa dæmið til enda. Til að mynda gæti verið skynsamlegt að stefna að því að lánið sé greitt upp áður en farið er á eftirlaun.
Hver er raunhæf lánsupphæð?
Þegar tekið er fasteignalán hjá LSR og öðrum lánveitendum þarf alltaf að fara í greiðslumat, þar sem metið er hversu hátt lán þú getur tekið út frá mánaðarlegum tekjum og skuldum. Nánar er farið yfir það hér neðar. Við mat á þessu skiptir einnig máli hvert lánshæfismat þitt er og hver greiðslusaga þín hefur verið hjá LSR, hafir þú áður verið með lán hjá sjóðnum.
Er nægt veðrými á fasteigninni þinni fyrir láninu?
LSR lánar allt að 70% af fasteignamati eða kaupverði fasteignar ef þú ert að kaupa fasteign. Þetta þýðir að ef þú ert að kaupa fasteign þarftu að geta greitt a.m.k. 30% af kaupverðinu. Því er mikilvægt að skoða vandlega hvort þú eigir nægilega mikið eigið fé til að standa undir því.