Örorkulífeyrir ef starfsgeta skerðist
Örorkulífeyrir hjá B-deild LSR aðstoðar þig við að bæta upp tekjumissi ef þú þarft að minnka við þig vinnu eða láta af störfum vegna sjúkdóms eða slyss.
Hjá B-deild LSR eiga sjóðfélagar rétt á örorkulífeyri þurfi þeir að minnka við sig vinnu eða hætta störfum vegna orkutaps sem metið er 10% eða meira. Þegar orkutap er metið er aðallega miðað við vanhæfni til að gegna því starfi sem sjóðfélagi hefur gegnt og er tengt aðild að sjóðnum.
Taka örorkulífeyris skerðir ekki áunnin réttindi til eftirlauna.
Örorkulífeyrir B-deildar LSR
- Ef starfsgeta skerðist um 10-100% í 3 mánuði eða lengur
- Greiddur mánaðarlega þar til starfsgeta næst aftur eða sjóðfélagi fer á eftirlaun
- Börn örorkulífeyrisþega geta átt rétt til barnalífeyris
- Ef aðalorsök örorku má rekja til starfs er upphæð lífeyris framreiknuð eins og greitt hefði verið til 65 ára aldurs
Fjárhæð örorkulífeyris
Örorkulífeyrir er greiddur mánaðarlega og miðast upphæðin við örorkumatið og þau réttindi sem sjóðfélagi hefur áunnið sér þegar starfsorka skerðist.
Dæmi:
Núverandi laun (viðmiðunarlaun): 500.000 kr.
Áunnin réttindi: 50% af viðmiðunarlaunum = 250.000 kr.
Mat á örorku: 40%
Mánaðarlegur örorkulífeyrir: 40% af 250.000 = 100.000 kr.
Þá getur samanlagt starfshlutfall og hlutfall örorkulífeyrisgreiðslna aldrei orðið meira en 100%. Þannig getur t.d. sjóðfélagi sem fær 40% örorkumat en greiðir iðgjöld af 70% starfi til B-deildar ekki fengið hærri örorkulífeyri en sem nemur 30% af viðmiðunarupphæð (70%+30%=100%).
75% örorka eða meira
Þegar örorka er metin 75% eða meira verður rétturinn til greiðslna hins vegar hinn sami og af fullum lífeyrisgreiðslum.
Dæmi:
Núverandi laun (viðmiðunarlaun): 500.000 kr.
Áunnin réttindi: 50% af viðmiðunarlaunum = 250.000 kr.
Mat á örorku: 80%
Mánaðarlegur örorkulífeyrir: 100% af 250.000 = 250.000 kr.
Ef rekja má aðalorsök örorku til starfs er lífeyrisréttur framreiknaður til 65 ára aldurs. Það þýðir að lífeyrisgreiðslur miðast ekki bara við þau réttindi sem sjóðfélagi hefur þegar áunnið sér, heldur líka við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði áunnið sér með því að greiða áfram iðgjöld til 65 ára aldurs.
Mat á örorku
Til að öðlast rétt til örorkulífeyris þarf trúnaðarlæknir LSR að meta örorkuna a.m.k. 10% í þrjá mánuði eða lengur.
Samanlagður lífeyrir, barnalífeyrir, almannatryggingar og/eða aðrar launagreiðslur getur aldrei vera hærri en sá tekjumissir sem sjóðfélaginn hefur sannarlega orðið fyrir sökum orkutaps. Við mat á tekjumissi er horft til meðallauna síðustu þriggja almanaksára fyrir orkutap og þau viðmiðunarlaun borin saman við tekjur sjóðfélaga eftir orkutap.
Hægt er að setja það sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans. Sjóðfélagi getur þurft að gangast undir endurmat á örorku eftir ákveðinn tíma og eru upplýsingar um það birtar í bréfi til sjóðfélaga þegar greiðslur hefjast.
Nauðsynleg gögn fyrir örorkuumsókn
- Útfyllt og undirrituð umsókn
- Ítarlegt læknisvottorð, ekki eldra en 3ja mánaða
- Sjóðfélaga ber að mæta í skoðun hjá trúnaðarlækni við mat og endurmat á örorku, telji trúnaðarlæknir þörf á því
- Athugaðu að ekki þarf að sækja um örorkulífeyri hjá öllum lífeyrissjóðum þar sem þú átt réttindi, aðeins þeim sem þú greiddir síðast til.