Fara á efnissvæði
Mínar síður

Þróun eftirlauna – val um meðaltals- eða eftirmannsreglu

Þegar þú ferð á eftirlaun miðast eftirlaunagreiðslur við þau laun sem þú hafðir við starfslok (eða hærra launað starf fyrr á starfsævinni, eins og lýst er á eftirlaunasíðunni). Eftirlaunin breytast svo í takt við launaþróun, annað hvort eftir meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu.

Almenna reglan er að eftirlaunin fylgi meðaltalsreglu, en þá fylgja eftirlaunin vísitölu fastra launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Hagstofan reiknar þessar breytingar mánaðarlega út frá þróun launa hjá öllu opinberu starfsfólki ríkis og sveitarfélaga.

Sjóðfélagar sem hefja eftirlaunatöku í beinu framhaldi af starfi geta þó valið að eftirlaunagreiðslur breytist samkvæmt eftirmannsreglu. Þá fylgja eftirlaunagreiðslur þeim kjarasamningsbundnu breytingum sem verða á launum fyrir starfið sem eftirlaunin miðast við. Ef hækkun verður á launum eftirmanns í starfi kannar sjóðurinn í samráði við launagreiðanda hvort sjóðfélagi á eftirlaunum skuli njóta þeirrar hækkunar. Mikilvægt er að eftirlaunaþegar sem velja eftirmannsreglu fylgist með launaþróun viðkomandi starfs og hafi samband við LSR ef þörf er á.    

Hægt er að skipta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu en ekki öfugt. Viljir þú breyta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu þarftu að fylla út sérstakt eyðublað og tekur breytingin gildi þremur mánuðum eftir að umsókn berst.

Meðaltals- eða eftirmannsregla

  • Meðaltalsreglan er almenna reglan
  • Með meðaltalsreglu hækka eftirlaun samkvæmt vísitölu launa opinberra starfsmanna
  • Eftirmannsregla býðst ef taka eftirlauna hefst í beinu framhaldi af starfi
  • Þá fylgja eftirlaun launaþróun eftirmanns í starfi