Makalífeyrir við fráfall sjóðfélaga
Við fráfall sjóðfélaga í B-deild LSR á eftirlifandi maki rétt á makalífeyri sem greiddur er ævilangt, en fellur niður ef makinn gengur í hjónaband að nýju.
Réttindi til makalífeyris ávinnast á hjúskapartíma og haldast þau réttindi þrátt fyrir hjúskaparslit. Hafi sjóðfélagi verið í fleiri en einu hjónabandi um ævina getur þannig hver eftirlifandi maki sem ekki hefur farið í hjúskap að nýju átt rétt til makalífeyris vegna þeirra lífeyrisréttinda sem áunnust í B-deild meðan á hjúskap stóð.
Makalífeyrir í B-deild
- Greiðist maka til æviloka
- Réttur til makalífeyris fellur niður ef maki giftist aftur
- Réttur til makalífeyris myndast einungis meðan á hjúskap stendur
- Fullur makalífeyrir: 50% af réttindum sjóðfélaga, en 20% til viðbótar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum
Fjárhæð makalífeyris
Fjárhæð makalífeyris fer eftir áunnum lífeyrisréttindum látins sjóðfélaga og fær makinn helming af þeim rétti. Eftirlifandi maki getur átt rétt á 20% að auki sé a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum uppfyllt:
- að hinn látni sjóðfélagi hafi við andlátið verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum,
- að hann hafi verið byrjaður að taka lífeyri og upphaf lífeyristöku hans hafi verið í beinu framhaldi af starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum,
- að hann hafi greitt iðgjald til sjóðsins af fullu starfi í 15 ár eða lengur og ekki greitt iðgjald til annars lífeyrissjóðs eftir að greiðslum til B-deildar lauk.
20% viðbótarréttindi miðast við að hinn látni hafi verið í fullu starfi við starfslok, en eru hlutfallslega minni ef sjóðfélaginn var í lægra starfshlutfalli.
Dæmi:
Hinn látni hafði greitt í sjóðinn í 25 ár og áunnið sér lífeyrisrétt sem nemur 50% af viðmiðunarlaunum. Maki sem var giftur hinum látna allan þann tíma fær helming af þeim rétti, 25%, og 20% að auki sem gera samtals 45%.
Hafi hinn látni áunnið sér 50% lífeyrisréttindi en hætt að greiða til sjóðsins og farið að greiða annað er réttur makans 25%.