Eftirlaun
Öruggar tekjur til æviloka
Örorkulífeyrir
Léttir undir ef vinnugeta skerðist
Makalífeyrir
Greiddur ævilangt við fráfall sjóðfélaga
Barnalífeyrir
Til 18 ára aldurs við örorku eða fráfall sjóðfélaga
Eftirlaun til æviloka
Almennur eftirlaunaaldur í B-deild LSR er 65 ára.
Undantekning er þó ef 95 ára regla næst fyrir þann tíma, þá er mögulegt að hefja töku eftirlauna eftir að samanlagður greiðslutími iðgjalda og lífaldur nær 95 árum, allt niður í 60 ára aldur.
Eftirlaunataka úr B-deild LSR er þó háð því skilyrði að sjóðfélagi sé ekki lengur í föstu starfi hjá ríkisstofnun eða sveitarfélagi í 50-100% starfshlutfalli. Sú regla gildir sama hvort sjóðfélagi greiðir iðgjöld af því starfi í A- eða B-deild LSR.
Fjárhæð eftirlauna er reiknuð sem hlutfall af viðmiðunarlaunum hvers sjóðfélaga (sjá nánar hér fyrir neðan).
Ef sjóðfélagi hefur greitt iðgjald vegna vaktaálags af reglubundnum vöktum myndast jafnframt sérstakur viðbótarréttur vegna þess.
Eftir að taka eftirlauna hefst breytist fjárhæðin í samræmi við launaþróun. Almennt er breytingin reiknuð með svokallaðri meðaltalsreglu en í sumum tilvikum er hægt að velja eftirmannsreglu. Hér má finna nánari umfjöllun um meðaltals- og eftirmannsreglu.
Eftirlaun í B-deild LSR
- Hægt að hefja töku eftirlauna við starfslok eftir 65 ára
- Ef 95 ára regla næst má hefja töku við starfslok allt niður í 60 ára aldur
- Reiknast sem hlutfall af viðmiðunarlaunum
- Greiðast mánaðarlega til æviloka
- Greiðslur breytast í samræmi við meðaltals- eða eftirmannsreglu
Eftirlaun fyrir dagvinnu
Við upphaf eftirlaunatöku eru eftirlaun reiknuð sem hlutfall af dagvinnulaunum (viðmiðunarlaunum) fyrir annað hvort lokastarf eða, ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt, hærra launað starf sem þú gegndir fyrr á starfsævinni.
Ávallt er miðað við dagvinnulaun af fullu starfi og því hefur starfshlutfall við starfslok ekki áhrif á viðmiðunarlaun. Þó má benda á að starfshlutfall við starfslok getur haft áhrif á makalífeyri.
Hversu hátt hlutfall þú færð af viðmiðunarlaunum þínum veltur á því hversu lengi þú hefur greitt til sjóðsins og starfshlutfalli þínu á starfsævinni. Á Mínum síðum getur þú séð það hlutfall af viðmiðunarlaunum þínum sem þú hefur áunnið þér.
Til að viðmiðunarlaun byggi á hærra launuðu starfi en lokastarfi þarf að uppfylla eitt þessara skilyrða:
- Ef þú hefur gegnt öðru starfi eða störfum sem eru betur launuð en lokastarfið og greitt iðgjöld af þeim til B-deildar LSR í samtals meira en 10 ár, þá reiknast eftirlaun af þeim launum.
- Ef þú hefur frestað eftirlaunatöku og farið úr hærra launuðu starfi í lægra launað starf þá áttu rétt á eftirlaunum sem miðast við betur launaða starfið.
- Ef þú hefur af heilsufarsástæðum farið úr hærra launuðu starfi í lægra launað starf þá tapast ekki réttur til eftirlauna sem miðast við betur launaða starfið.
Eftirlaun fyrir vaktaálag
Ef þú hefur greitt iðgjald vegna vaktaálags, orlofs- og persónuuppbótar hefur þú áunnið þér lífeyrisréttindi vegna þeirra. Eftirlaunagreiðslur vegna vaktaálags eru reiknaðar út frá ákveðinni viðmiðunarfjárhæð sem fylgir vísitölu dagvinnulauna opinberra starfsmanna. Réttindin eru birt sem ákveðin prósentutala af þessum dagvinnulaunum.
Dæmi:
Sjóðfélagi hefur áunnið sér 15% réttindi fyrir greiðslur af vaktaálagi þegar taka eftirlauna hefst. Í september 2024 var viðmiðunarfjárhæðin 466.355 kr.
Þá verður greiðsla hans vegna þessara réttinda í september 2024:
0,15 * 466.355 = 69.953 kr.
Viðmiðunarfjárhæð vaktaálags:
470.975 kr.
m.v. janúar 2025
Hálf eftirlaun
Sjóðfélagar B-deildar geta tekið hálf eftirlaun frá 65 ára aldri. Skilyrði fyrir því er að vera ekki í meira en 50% starfi hjá ríkisstofnun og í sumum tilfellum sveitarfélögum óháð því hvort greitt sé iðgjöld af því starfi í A eða B-deild LSR. Ef það er gert þróast sá helmingur eftirlaunanna sem er geymdur í takt við reglur sjóðsins og áframhaldandi iðgjaldagreiðslur í hlutastarfi. Þegar sótt er um full eftirlaun er geymdu réttindunum svo bætt við eftirlaunagreiðslurnar. Frá þeim tíma þarf sjóðfélagi að láta af starfi eða fara í starfshlutfall sem er lægra en 50%.
Enginn ávinningur felst í að fresta eftirlaunatöku á helmingi réttinda í B-deild og því ætti þessi valkostur fyrst og fremst vera íhugaður ef sjóðfélagi sér hag í því að sækja um hálfan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en skilyrði þeirra er að starfshlutfall sé ekki meira en 50% á almanaksári og að lífeyrisþegi sé kominn á hálf eftirlaun frá sínum lífeyrissjóðum.
Þróun eftirlauna – val um meðaltals- eða eftirmannsreglu
Þegar þú ferð á eftirlaun miðast eftirlaunagreiðslur við þau laun sem þú hafðir við starfslok (eða hærra launað starf fyrr á starfsævinni, eins og lýst er hér fyrir ofan). Eftirlaunin breytast svo í takt við launaþróun, annað hvort eftir meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu.
Almenna reglan er að eftirlaunin fylgi meðaltalsreglu, en þá fylgja eftirlaunin vísitölu fastra launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Hagstofan reiknar þessar breytingar mánaðarlega út frá þróun launa hjá öllu opinberu starfsfólki ríkis og sveitarfélaga.
Sjóðfélagar sem hefja eftirlaunatöku í beinu framhaldi af starfi geta þó valið að eftirlaunagreiðslur breytist samkvæmt eftirmannsreglu. Þá fylgja eftirlaunagreiðslur þeim kjarasamningsbundnu breytingum sem verða á launum fyrir starfið sem eftirlaunin miðast við. Ef hækkun verður á launum eftirmanns í starfi kannar sjóðurinn í samráði við launagreiðanda hvort sjóðfélagi á eftirlaunum skuli njóta þeirrar hækkunar. Mikilvægt er að eftirlaunaþegar sem velja eftirmannsreglu fylgist með launaþróun viðkomandi starfs og hafi samband við LSR ef þörf er á.
Hægt er að skipta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu en ekki öfugt. Viljir þú breyta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu þarftu að fylla út sérstakt eyðublað og tekur breytingin gildi þremur mánuðum eftir að umsókn berst.
Meðaltals- eða eftirmannsregla
- Meðaltalsreglan er almenna reglan
- Með meðaltalsreglu hækka eftirlaun samkvæmt vísitölu launa opinberra starfsmanna
- Eftirmannsregla býðst ef taka eftirlauna hefst í beinu framhaldi af starfi
- Þá fylgja eftirlaun launaþróun eftirmanns í starfi