Einstaklingsaðild að B-deild
Hafi starf þitt verið lagt niður átt þú mögulega rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með einstaklingsaðild. Þá þarftu að senda inn umsókn um áframhaldandi aðild að B-deild.
Ef einstaklingsaðild er samþykkt berð þú sjálf/ur ábyrgð á iðgjaldagreiðslum til sjóðsins í samræmi við útreikninga sem útskýrðir eru hér fyrir neðan.
Iðgjaldagreiðslur fyrir einstaklingsaðild
Greiða skal 12% iðgjald af dagvinnulaunum fyrir það starf sem lagt var niður, persónuuppbót, orlofi og vaktaálagi ef það á við. Einnig þarf að greiða 0,10% gjald af viðmiðunarlaunum vegna VIRK endurhæfingarsjóðs og þarf það að fylgja iðgjaldaskilagrein.
Eindagi iðgjalda er 14 dögum eftir útborgun launa hvort sem um fyrirfram- eða eftirágreidd laun er að ræða.
Iðgjöld skulu miðuð við þau laun sem þú hafðir þegar staða þín var lögð niður og uppreiknuð í takt við vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn frá 1997. Gildi vísitölunnar hverju sinni og upplýsingar um þróun hennar má finna á vef Hagstofunnar.
Nauðsynleg gögn með umsókn
- Staðfesting launagreiðanda á að viðkomandi starf hafi verið lagt niður og frá hvaða tíma.
- Staðfesting á dagvinnulaunum sem síðast var greitt af til sjóðsins, þ.e. kjarasamningi, launaflokki og þrepi eða sambærilegri kjaraákvörðun.
- Ef greidd eru biðlaun þarf að upplýsa hvenær greiðslum lýkur.
Útreikningur viðmiðunarlauna
Til að finna viðmiðunarlaun er margfaldað með vísitölu eins og hún er hverju sinni og deilt með vísitölu þess mánaðar þegar starf var lagt niður.
Dæmi:
Starf er lagt niður í desember 2006, laun voru 250.000 kr. og vísitalan 252,8 stig. Í júní 2024 er vísitalan 790,0.
Viðmiðunarlaun í júní 2024 eru því 250.000 * 790 / 252,8 = 781.250 kr.
Breytingar á starfshögum
Ef sjóðfélagi með einstaklingsaðild hefur störf hjá vinnuveitanda sem hefur aðild að B-deild fellur einstaklingsaðildin niður. Ef látið er af hinu nýja starfi innan tveggja ára tekur einstaklingsaðildin gildi að nýju.
Ef iðgjaldagreiðslur í einstaklingsaðild falla niður í þrjá mánuði eða lengur er litið svo á að viðkomandi hafi fallið frá rétti sínum til áframhaldandi aðildar að sjóðnum. Aðili hefur þó jafnan rétt til að hefja aðild að nýju innan 12 mánaða frá því að iðgjöld féllu niður hefji hann iðgjaldaskil að nýju innan þess tíma.