Val um 32 eða 95 ára reglu
Ef þú hefur greitt til B-deildar í samtals 32 ár geturðu mögulega valið milli svokallaðra 32 og 95 ára reglna. Það stendur til boða ef samanlagður greiðslutími iðgjalda til B-deildar og lífaldur nær 95 árum.
Þessar reglur segja í meginatriðum til um tvennt. Hvenær hægt er að hefja eftirlaunatöku og hvenær sjóðfélagi verður iðgjaldafrír. Að auki eru reglur um ávinnslu réttinda fyrir og eftir að reglu er náð örlítið mismunandi. Muninn má sjá í töflu hér fyrir neðan.
Upphaf eftirlaunatöku
Ef 32 ára reglan er valin má hefja töku eftirlauna við 65 ára aldur. Ef 95 ára reglan er valin má hins vegar hefja töku eftirlauna þegar samanlagður greiðslutími iðgjalda og lífaldur nær 95 árum, en þó ekki fyrir 60 ára aldur.
Hvað er að vera iðgjaldafrír?
Þegar sjóðfélagi verður iðgjaldafrír samkvæmt 32 eða 95 ára reglunni, eftir því hvor þeirra er valin, þá hættir hann að greiða 4% iðgjald af launum til B-deildar. Þar með hækka útborguð laun sjóðfélaga eftir að hann verður iðgjaldafrír. Á móti hækkar launagreiðandinn iðgjaldagreiðslur sínar sem nemur 4% og greiðir þannig 12% af launum í iðgjöld í stað 8% áður.
Val um reglu
- Almennur eftirlaunaaldur er 65 ára
- Ef þú hefur greitt iðgjöld í samtals 32 ár fyrir 65 ára aldur getur þú orðið iðgjaldafrí/r með því að velja 32 ára reglu
- Ef greiðslutími iðgjalda + lífaldur nær 95 árum fyrir 64 ára getur þú hafið töku eftirlauna frá þeim tíma með því að velja 95 ára reglu – þó ekki fyrir 60 ára aldur
- Nokkrum mánuðum áður en þú uppfyllir ofangreind skilyrði færðu bréf frá sjóðnum sem býður þér að velja annað hvort 32 eða 95 ára regluna
Einkenni 32 og 95 ára reglnanna
32 ára reglan | 95 ára reglan | |
Upphaf eftirlaunatöku: | Frá 65 ára | Frá þeim tíma sem greiðslutími iðgjalda + lífaldur nær 95 árum – þó ekki fyrir 60 ára |
Sjóðfélagi verður iðgjaldafrír: | Þegar 32 ára regla næst | Þegar 95 ára regla næst |
Lífeyrisréttindi þegar sjóðfélagi nær reglu (m.v. 100% vinnu): | 64% (2% fyrir hvert ár) | 64% að hámarki (2% á ári þar til 95 ára regla næst) |
Réttindaávinnsla eftir að sjóðfélagi nær reglu (m.v. 100% vinnu): | 1% á ári fram að 65 ára aldri; 2% á ári eftir það | 2% á ári |
Nánari upplýsingar og dæmi
-
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár og ákveður að velja 32 ára regluna falla iðgjaldagreiðslur niður og frá sama tíma greiðir launagreiðandinn 12% af þeim launum sem iðgjöld reiknast af. Þeir sjóðfélagar sem velja þessa reglu verða því iðgjaldafríir upp frá því en ávinna sér 1% réttindi á ári, miðað við fullt starf, í stað 2% áður.
Þeir sem velja 32 ára regluna geta í fyrsta lagi hafið töku eftirlauna við 65 ára aldur. Eftir að eftirlaunaaldri er náð og sjóðfélagi lætur ekki af störfum, ávinnast 2% réttindi á ári að nýju miðað við fullt starf.
Dæmi:
Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára og greiðir iðgjöld af fullu starfi í 32 ár eða til 57 ára aldurs, ávinnur sér 64% lífeyrisrétt.
Frá 57 ára aldri til 65 ára aldurs bætir hann við sig 1% á ári eða alls 8%.
Láti sjóðfélaginn af störfum 65 ára hefur hann áunnið sér 72% lífeyrisrétt.
Starfi hann áfram til 70 ára aldurs bætir hann 2% við rétt sinn fyrir hvert ár frá 65 ára aldri til 70 ára aldurs eða samtals 10% fyrir þessi ár. Lífeyrisréttur við 70 ára aldur verður þá alls 82%.
Starfi hann áfram eftir að 70 ára aldri er náð, ávinnast áfram 2% á ári fyrir fullt starf.
Allar ofangreindar prósentutölur miðast við 100% starf.
-
Með 95 ára reglu er átt við samanlagðan iðgjaldagreiðslutíma og lífaldur. 95 ára regla gerir sjóðfélögum kleift að hefja töku eftirlauna fyrir 65 ára aldur. Þeir, sem ná þessu marki áður en 64 ára aldri er náð, verða iðgjaldafríir og geta hafið töku eftirlauna samkvæmt þessari reglu en þó aldrei fyrr en þeir hafa náð 60 ára aldri. Þeir sem ná 95 ára reglu fyrr verða að halda áfram í starfi sem veitir þeim aðild að B-deild LSR þar til 60 ára aldri er náð og/eða fram að þeim tíma er þeir hefja töku eftirlauna.
Hámarksréttindi þegar 95 ára reglu er náð eru 64%. Haldi sjóðfélagi áfram starfi eftir að reglu er náð bætir hann við sig 2% fyrir hvert ár í fullu starfi. Hafi sjóðfélagi náð 64% réttindum áður en reglu er náð halda iðgjaldagreiðslur áfram til sjóðsins þangað til það gerist.
Dæmi:
Sjóðfélagi sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára nær 95 ára markinu þegar hann verður 60 ára. Hann hefur þá greitt í sjóðinn í 35 ár (60+35=95).
Sjóðfélagi þessi hefur rétt á að hefja töku eftirlauna við 60 ára aldur. Áunninn lífeyrisréttur verður þá 64% (sem eru hámarksréttindi þegar 95 ára regla næst).
Starfi hann áfram til 65 ára aldurs verður rétturinn 74%.
Starfi hann áfram til 70 ára aldurs verður rétturinn 84%.
Starfi hann áfram eftir að 70 ára aldri er náð ávinnast áfram 2% á ári fyrir fullt starf.
Allar ofangreindar prósentutölur miðast við 100% starf.
Hvenær næ ég 95 ára reglunni?
Ef þú hefur greitt samfellt í B-deild LSR síðan þú varst ... nærðu 95 ára reglunni þegar þú verður ....
- Ath.: Reiknivélin er aðeins til viðmiðunar. Til að fá nákvæmar upplýsingar fyrir þig skaltu hafa samband við LSR.
- Allt hlé frá vinnu dregst frá 95 ára reglunni. Þar á meðal teljast verkföll, launalaust leyfi, fæðingarorlof og önnur vinnuhlé.
- Ekki er hægt að hefja töku eftirlauna fyrr en eftir að 60 ára aldri er náð, jafnvel þótt 95 ára reglan náist fyrir þann tíma.
- 95 ára reglunni þarf að ná fyrir 64 ára aldur og því er ekki hægt að ná henni ef greiðslur hófust eftir 33 ára.