Þú greiðir 4% af launum og launagreiðandi 11,5%. Þannig myndast eftirlaunaréttindi og mikilvæg réttindi fyrir þig og þína fjölskyldu ef þú verður fyrir áföllum síðar á lífsleiðinni.
Hefja má töku eftirlauna frá 60 ára aldri og miðast upphæðin við greidd iðgjöld til sjóðsins yfir starfsævina og aldur sjóðfélaga þegar eftirlaunataka hefst.
Tveir meginkostir eru í boði fyrir sambúðaraðila sem vilja skipta með sér lífeyrisréttindum eða greiðslum. Í sumum tilvikum þarf að sækja um skiptingu fyrir 65 ára aldur.
Skattlagning eftirlauna og lífeyris
Greiða þarf hefðbundinn tekjuskatt af eftirlauna - eða lífeyrisgreiðslum og er skatturinn dreginn af mánaðarlegum greiðslum. Ef þú færð laun eða lífeyri greidd frá fleirum en LSR þarftu að meta hvaða launagreiðandi skuli nýta persónuafslátt og í hvaða skattþrepi skuli skattleggja greiðslur sjóðsins.
Þú berð ábyrgð á að tilkynna sjóðnum í hvaða skattþrepi eigi að skattleggja eftirlauna- eða lífeyrisgreiðslur og hvort nýta eigi persónuafslátt. Þannig kemurðu í veg fyrir að skattgreiðslur séu annað hvort of- eða vanreiknaðar, sem getur leitt til óþæginda síðar.
Ef maki fullnýtir ekki persónuafslátt sinn geta eftirlauna- og lífeyrisþegar notað allt að 100% af ónýttum persónuafslátti maka.
Mánaðarleg skattþrep eru þrjú auk skattleysismarka:
- Tekjur undir kr. 472.005 (31,49%)
- Tekjur frá kr. 472.006 til 1.325.127 (37,99%)
- Tekjur yfir kr. 1.325.127 (46,29%)
- Skattleysismörk: kr. 218.136 / mán. miðað við 100% nýtingu persónuafsláttar