Fara á efnissvæði
Mínar síður

Skipting eftirlaunaréttinda milli maka

Sjóðfélögum býðst að skipta með sér eftirlaunaréttindum sem ávinnast meðan á samvist stendur. Bæði er hægt að skipta þegar áunnum réttindum og framtíðarréttindum, þ.e. þeim réttindum sem sjóðfélagar eiga eftir að ávinna sér síðar. Þessi skipting tekur ekki til örorku- eða makalífeyrisréttinda.

Nauðsynlegt er að skiptingin sé gagnkvæm, þ.e. hvor aðili í sambúð þarf að veita hinum sama hlutfall réttinda sinna. Hægt er að framselja allt að 50% réttinda til maka og fá á móti sama hlutfall af réttindum makans.

Ef sækja á um skiptingu réttinda sem þegar hafa áunnist er nauðsynlegt að sækja um það áður en taka eftirlauna hefst og áður en eldri sambúðaraðili nær 65 ára aldri. Þá þurfa báðir aðilar að skila inn heilbrigðisvottorði læknis sem staðfestir að þau séu ekki með skertar lífslíkur. 

Við andlát annars sambúðaraðila helst skiptingin óbreytt, þ.e. eftirlifandi maki nýtur áfram umsamins hluta af réttindum hins látna maka en fær ekki til baka þann hluta réttindanna sem framseldur var.

Niðurfelling samkomulags

Skipting réttinda er bindandi og verður ekki afturkölluð nema samþykki allra lífeyrissjóða liggur fyrir. Aðilar geta sameiginlega óskað eftir niðurfellingu á samkomulagi um skiptingu á framtíðarréttindum. 

Dæmi um skiptingu eftirlaunaréttinda hjá A-deild

  • Magnús á 500.000 kr. í mánaðarleg eftirlaunaréttindi en Guðrún á 200.000 kr.
  • Þau skipta með sér réttindum sínum um 50%.
  • Í grófum dráttum verða réttindi hvors fyrir sig 350.000 kr. á mánuði eftir skiptinguna.
  • Ef Magnús fellur frá á undan Guðrúnu munu hennar eftirlaunagreiðslur haldast áfram 350.000 kr.  Við bætist makalífeyrir sem miðast við 500.000 kr. (250.000 kr. fyrstu þrjú árin, 125.000 kr. næstu tvö ár á eftir). 
  • Ef Guðrún fellur frá á undan Magnúsi munu hans eftirlaunagreiðslur haldast áfram 350.000 kr. á mánuði. Við bætist makalífeyrir sem miðast við 200.000 kr. (100.000 kr. á mánuði fyrstu þrjú árin, 50.000 kr. á mánuði næstu tvö ár á eftir).

Aðalatriði skiptingar eftirlaunaréttinda milli hjóna:

  • Gildir einungis fyrir sambúðartíma
  • Hægt að velja hvort skiptingin nái til áunninna réttinda, framtíðarréttinda eða beggja valkosta
  • Skiptingin nær aðeins til áunninna réttinda meðan hjúskapur eða sambúð hafa staðið eða munu standa
  • Nauðsynlegt að sækja um fyrir 65 ára aldur
  • Skipting tekur ekki til örorku- eða makalífeyrisréttinda
  • Ekki er hægt að sækja um skiptingu eftirlaunaréttinda ef annar eða báðir aðilar hafa hafið töku eftirlauna
  • Báðir aðilar framselja sama hlutfall sinna réttinda
  • Hægt að velja skiptingarhlutfall allt upp í 50%
  • Við andlát heldur eftirlifandi maki réttindum samkvæmt samningi um skiptingu
  • Umsókn gildir fyrir alla íslenska lífeyrissjóði

Ræðum málin

Skipting réttinda milli maka er umfangsmikil óafturkræf aðgerð og að mörgu að huga. Við hvetjum sjóðfélaga til að fá ráðgjöf hjá sjóðnum áður en ákvörðun er tekin.