Skattlagning eftirlauna og lífeyris
Greiða þarf hefðbundinn tekjuskatt af eftirlauna - eða lífeyrisgreiðslum og er skatturinn dreginn af mánaðarlegum greiðslum. Ef þú færð laun eða lífeyri greidd frá fleirum en LSR þarftu að meta hvaða launagreiðandi skuli nýta persónuafslátt og í hvaða skattþrepi skuli skattleggja greiðslur sjóðsins.
Þú berð ábyrgð á að tilkynna sjóðnum í hvaða skattþrepi eigi að skattleggja eftirlauna- eða lífeyrisgreiðslur og hvort nýta eigi persónuafslátt. Þannig kemurðu í veg fyrir að skattgreiðslur séu annað hvort of- eða vanreiknaðar, sem getur leitt til óþæginda síðar.
Ef maki fullnýtir ekki persónuafslátt sinn geta eftirlauna- og lífeyrisþegar notað allt að 100% af ónýttum persónuafslátti maka.
Þú getur kannað stöðu þína á þjónustusíðum Skattsins, þar sem m.a. má sjá upplýsingar um skattþrep og nýtingu persónuafsláttar. Eins getur þú leitað til sjóðsins til að fá frekari ráðleggingar varðandi skattþrep.
Mánaðarleg skattþrep eru þrjú auk skattleysismarka:
- Tekjur undir kr. 472.005 (31,49%)
- Tekjur frá kr. 472.006 til 1.325.127 (37,99%)
- Tekjur yfir kr. 1.325.127 (46,29%)
- Skattleysismörk: kr. 218.136 / mán. miðað við 100% nýtingu persónuafsláttar
Hvernig er best að ákveða skattþrep og nýtingu persónuafsláttar?
Staða hvers og eins er mismunandi, en eftirfarandi leiðbeiningar er gott að hafa til hliðsjónar:
Hver greiðir þér að jafnaði hæstu skattskyldu greiðsluna á mánuði?
Ef LSR greiðir hæstu greiðsluna
- Láttu LSR fullnýta persónuafslátt og veldu skattþrep 1. Þá fara allar greiðslur frá LSR í rétt skattþrep.
- Ef þú færð greiðslur frá fleirum skaltu láta þá vita af því hvað greiðslur LSR eru að jafnaði miklar fyrir skatt, svo þeir geti sett sínar greiðslur í rétt skattþrep.
- Ef greiðslan frá LSR er lægri en skattleysismörk getur þú látið aðra vinnuveitendur eða lífeyrissjóði nýta það sem eftir stendur af persónuafslætti í hverjum mánuði.
Ef annar aðili greiðir hæstu greiðsluna:
- Láttu viðkomandi aðila fullnýta persónuafsláttinn og nota skattþrep 1.
- Ef þú sérð fram á að greiðslur LSR falli einungis undir eitt ákveðið skattþrep þegar þær leggjast ofan á greiðslur frá öðrum, skaltu velja viðkomandi skattþrep fyrir greiðslur LSR.
- Ef þú sérð fram á að greiðslur LSR falli á tvö mismunandi skattþrep skaltu hins vegar velja valmöguleikann: „Skattþrep skal miðast við aðrar mánaðarlegar tekjur mínar“ og skrá þær tekjur sem þú ert með hjá öðrum en LSR. Þá skattleggur LSR greiðslur sínar með réttum hætti í viðeigandi skattþrep.
- Ef viðkomandi aðili fullnýtir ekki persónuafsláttinn þinn getur þú látið LSR nýta þann hluta sem eftir stendur.
Dæmi um val á skattþrepum
Dæmi 1: Lára fær greiðslur frá fjórum lífeyrissjóðum
- Sjóður 1: 420.000 kr. á mánuði
- Sjóður 1: 150.000 kr. á mánuði
- Sjóður 3: 70.000 kr. á mánuði
- Sjóður 4: 45.000 kr. á mánuði
Greiðslur úr sjóðum 1 og 4 eru nálægt hámarki í skattþrepi 1 (sjá nánar um skattþrep hér fyrir ofan). Því er best fyrir Láru að setja greiðslur frá sjóði 1 og 4 í skattþrep 1 til að fullnýta það. Hún myndi jafnframt biðja Sjóð 1 um að nýta persónuafslátt sinn. Svo myndi Lára biðja sjóði 2 og 3 um að setja greiðslur þeirra í skattþrep 2.
Dæmi 2: Gunnar fær greiðslur frá vinnuveitanda og LSR
- Vinnuveitandi: 350.000 kr. á mánuði
- LSR: 250.000 kr. á mánuði
Þar sem greiðslur vinnuveitanda fullnýta ekki skattþrep 1, en eru hærri en greiðslur LSR, er skynsamlegast fyrir Gunnar að láta vinnuveitanda fullnýta persónuafslátt og nýta skattþrep 1. Hjá LSR ætti hann svo að velja „Skattþrep skal miðast við aðrar mánaðarlegar tekjur mínar“ og skrá svo 350.000 í reitinn. Þá notar LSR skattþrep 1 fyrir tekjur frá 350.000 kr. og upp að næsta skattþrepi, og svo skattþrep 2 eftir það.
Búseta erlendis
Eftirlauna- og lífeyrisþegar sem búsettir eru í landi sem er með tvísköttunarsamning við Ísland geta sótt um undanþágu frá skattlagningu lífeyristekna. Það er gert með því að fylla út sérstakt eyðublað hjá Skattinum og senda þeim ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Ef Skatturinn samþykkir að lífeyrisgreiðslur LSR séu undanþegnar skattlagningu á Íslandi fær LSR tilkynningu um það. Athugaðu að undanþágan gildir aðeins eitt ár í senn og þarf því að sækja um hana árlega.