Fara á efnissvæði
Mínar síður

Örorkulífeyrir ef starfsgeta skerðist

Örorkulífeyrir úr A-deild LSR aðstoðar við að bæta upp tekjumissi ef þú þarft að minnka við þig vinnu eða láta af störfum vegna sjúkdóms eða slyss.

Til öðlast rétt á greiðslu örorkulífeyris þarf trúnaðarlæknir sjóðsins  að meta örorku a.m.k. 40% í þrjá mánuði eða lengur. 

Börn sjóðfélaga sem fá örorkulífeyri geta átt rétt til barnalífeyris séu ákveðin skilyrði uppfyllt.

Örorkulífeyrir A-deildar LSR

  • Ef starfsgeta skerðist um 40-100% í 3 mánuði eða lengur
  • Greiddur mánaðarlega þar til starfsgeta næst aftur eða sjóðfélagi fer á eftirlaun
  • Börn örorkulífeyrisþega geta átt rétt til barnalífeyris
  • Framreikningur getur aukið verðmæti réttinda

Fjárhæð örorkulífeyris

Fjárhæð örorkulífeyris fer eftir örorkumati og þeim réttindum sem sjóðfélagi hefur áunnið sér.

Dæmi:

Áunnin réttindi: 500.000 kr
Mat á örorku: 50%
Mánaðarlegur örorkulífeyrir: 50% af 500.000 = 250.000 kr.

Við mat á réttindum getur sjóðfélagi átt rétt á framreikningi, sem getur aukið verðmæti réttindanna verulega, sérstaklega fyrir yngri sjóðfélaga. Við framreikning miðast réttindi sjóðfélaga ekki einungis við þau réttindi sem þegar hafa áunnist, heldur líka þau réttindi sem sjóðfélagi hefði áunnið sér með áframhaldandi iðgjaldagreiðslum til 65 ára aldurs. Eru réttindin þá reiknuð út frá meðaltali iðgjaldagreiðslna síðustu þriggja ára.

Skilyrði fyrir framreikningi er að sjóðfélagi hafi greitt til sjóðsins í a.m.k. þrjú af síðustu fjórum almanaksárum og greitt iðgjald í a.m.k. sex mánuði af síðustu tólf mánuðum fyrir orkutapið. Við mat á þessum greiðslutíma iðgjalda er einnig tekið tillit til iðgjalda sem greidd hafa verið til annarra lífeyrissjóða.

Einfaldað dæmi um framreikning:

35 ára sjóðfélagi með 500.000 kr. laun á mánuði fær 75% örorkumat. Þegar orkutap á sér stað hefur hann áunnið sér 100.000 kr. mánaðarleg réttindi.

Eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi verða örorkulífeyrigreiðslur hans:
75% af 100.000 = 75.000 kr.

Eigi sjóðfélagi rétt á framreikningi er reiknað út hversu miklum réttindum sjóðfélaginn hefði safnað frá 35 ára til 65 út frá meðalgreiðslum síðustu þriggja ára og því bætt við heildarréttindin. Gerum ráð fyrir að framreikningurinn sé 188.000 kr. í þessu dæmi.

Þá reiknast mánaðarlegar örorkulífeyrisgreiðslur svona:
100.000 + 188.000 = 288.000
75% af 288.000 = 216.000 kr. 

Mat á örorku

Til að öðlast rétt til örorkulífeyris þarf trúnaðarlæknir LSR að meta örorkuna a.m.k. 40% í þrjá mánuði eða lengur. Fyrstu fimm árin miðast örorkumat við hæfni sjóðfélagans til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og veitt honum aðild að sjóðnum. Að því tímabili loknu miðast örorkumat við getu til almennra starfa.

Samanlagður lífeyrir, barnalífeyrir, almannatryggingar og/eða aðrar launagreiðslur getur aldrei vera hærri en sá tekjumissir sem sjóðfélaginn hefur sannarlega orðið fyrir sökum orkutaps. Við mat á tekjumissi er horft til meðallauna síðustu þriggja almanaksára fyrir orkutap og þau viðmiðunarlaun borin saman við tekjur sjóðfélaga eftir orkutap.

Hægt er að setja það sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans. Sjóðfélagi getur þurft að gangast undir endurmat á örorku eftir ákveðinn tíma og eru upplýsingar um það birtar í bréfi til sjóðfélaga þegar greiðslur hefjast.

Nauðsynleg gögn fyrir örorkuumsókn

  • Útfyllt og undirrituð umsókn
  • Ítarlegt læknisvottorð, ekki eldra en þriggja mánaða
  • Athugaðu að ekki þarf að sækja um örorkulífeyri hjá öllum lífeyrissjóðum þar sem þú átt réttindi, aðeins þeim sem þú greiddir síðast til