Fara á efnissvæði
Mínar síður

Eftirlaun og lífeyrir fyrir sjóðfélaga erlendis

Ef eftirlauna- eða lífeyrisþegar LSR eru með lögheimili erlendis þurfa þeir að skila inn lífsvottorði til sjóðsins á hverju ári. Vottorðið þarf að vera staðfest af opinberum aðila í viðkomandi landi.

Sjóðurinn sendir áminningu til lífeyrisþega á fyrsta ársfjórðungi og því mikilvægt að LSR hafi netfang þeirra á skrá svo áminningin komist til skila. Hægt er að skrá netfang á mínum síðum.

Í árlegri áminningu kemur fram hvenær skilafresturinn er og hvaða gögnum þarf að skila. Auk búsetuvottorðs skulu:

  • Makalífeyrisþegar senda sjóðnum hjúskaparvottorð frá búsetulandi með upplýsingum um núverandi hjúskaparstöðu
  • Örorkulífeyrisþegar senda sjóðnum afrit af síðasta skattframtali

Vinsamlegast athugaðu að lífeyrisgreiðslur stöðvast ef gögn berast ekki til LSR innan þess tíma sem gefinn er upp. 

Lífeyrisgreiðslur sem stöðvast eru greiddar afturvirkt, að hámarki 4 ár í samræmi við fyrningarlög, skili sjóðfélagi inn fullnægjandi gögnum sem staðfesta rétt á áframhaldandi greiðslum.

Hægt er að senda sjóðnum vottorðið með hefðbundnum pósti á heimilisfang sjóðsins eða tölvupósti á netfangið lifeyrir@lsr.is.

Lífsvottorð

  • Þarf að skila inn árlega
  • Vottun opinbers aðila í viðkomandi landi er nauðsynleg
  • Makalífeyrisþegar þurfa að skila inn lífsvottorði ásamt hjúskaparstöðu

Skattlagning á lífeyristekjum

Í lögum um tekjuskatt segir að almennt skuli þeir sem búa erlendis og hafa tekjur frá Íslandi greiða skatt af þeim tekjum á Íslandi.

Tvísköttunarsamningar

Undanþága frá þeirri reglu gæti verið fyrir hendi ef lífeyrisþegi er búsettur í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við. Í sumum tvísköttunarsamningum eru ákvæði að lífeyrisþegar greiði skatt af íslenskum lífeyrisgreiðslum í búsetulandi en ekki á Íslandi. Í þeim tilfellum er hægt að sækja um undanþágu hjá Skattinum. Skatturinn sendir staðfestingu um undanþágu til LSR sé umsóknin samþykkt. Lífeyrisþegi verður þá skráður undanþeginn skatti frá þeim tíma sem staðfestingin berst. LSR endurgreiðir ekki skatt sem hefur verið greiddur áður en undanþágan berst. Það er gert með endurgreiðslu frá Skattinum við næstu álagningu.

Athygli er vakin á því að Skatturinn veitir einungis undanþágu fyrir yfirstandandi ár. Lífeyrisþegi þarf því að endurnýja undanþáguna í upphafi hvers árs. Skatturinn tekur við umsóknum um endurnýjun frá 1. desember ár hvert.

Vinsamlegast athugaðu að:

  • Lögum samkvæmt verður staðfesting á undanþágu að berast til LSR frá Skattinum. 
  • LSR ekki heimilt að sækja um undanþágu fyrir hönd lífeyrisþega.
  • Undanþágan fellur úr gildi þegar lífeyrisþegi flytur til Íslands og það er á hans ábyrgð að tilkynna það til LSR til að koma í veg fyrir innheimtu á vangreiddum skatti í næstu álagningu Skattsins.


Hver getur sótt um undanþágu?

LSR bendir lífeyrisþegum á að hafa samband við Skattinn til að kanna rétt sinn á undanþágu. Tvísköttunarsamningar eru misjafnir og líta þarf til eðli lífeyristekna og hvort lífeyrisþegi sé íslenskur eða erlendur ríkisborgari.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum í október 2024 geta lífeyrisþegar sem búa á Norðurlöndunum ekki sótt um undanþágu á staðgreiðslu vegna lífeyrisgreiðslna.

Hér má finna umsóknareyðublaðið hjá Skattinum:

Umsókn á vef Skattsins