Breytingar á réttindum í A-deild vegna hækkandi lífaldurs
Kynning frá 2023
Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf í lok árs 2021 út nýjar lífslíkutöflur fyrir Íslendinga sem lífeyrissjóðum ber að fara eftir. Samkvæmt þeim munu Íslendingar lifa töluvert lengur en áður var reiknað með og yngri kynslóðir njóta fleiri eftirlaunaára en eldri kynslóðir.
Þetta þýðir að lífeyrissjóðir þurfa að gera ráð fyrir að sjóðfélagar verði lengur á eftirlaunum en áður var reiknað með og það hefur veruleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða.
Til að bregðast við þessu hefur LSR í samráði við tryggingastærðfræðinga sjóðsins gert breytingar á mánaðarlegum réttindum sem sjóðfélagar hafa áunnið sér fyrir greidd iðgjöld til og með 31.12.2022. Fyrr á árinu voru gerðar sambærilegar breytingar á framtíðarávinnslu frá 1.1.2023 sem tóku mið af þessum breyttu forsendum. Nánar er fjallað um þær breytingar hér.
Lækkun mánaðarlegra lífeyrisréttinda svo heildarréttindi yfir ævina verði þau sömu og fyrir breytingar á lífslíkum
Þegar eftirlaunaárum sjóðfélaga fjölgar þarf að lækka mánaðarleg réttindi sjóðfélagans í hlutfalli við áætlaða lengingu lífaldurs hjá hverjum árgangi fyrir sig. Með því geta iðgjöldin staðið undir fleiri eftirlaunagreiðslum í framtíðinni og heildarréttindi yfir áætlaða ævi haldast óbreytt.
Dæmi um áhrif breytinga á sjóðfélaga
Fyrir breytingar á lífslíkum var gert ráð fyrir að sjóðfélagar í A-deild myndu að meðaltali ná 87 ára aldri og tækju að jafnaði eftirlaun í 20 ár, eða frá 67 ára.
Tökum sem dæmi sjóðfélaga sem greitt hefur iðgjöld sem veita honum heildarréttindi að fjárhæð 40 milljónum króna. Fyrir breytingarnar áætlaði sjóðurinn að greiða þessi réttindi út í formi eftirlauna í 20 ár, sem þýddi greiðslur upp á 2 milljónir kr. á ári eða 167.667 kr. á mánuði. Breyttar lífslíkur þýða hins vegar að áætlaður lífaldur sjóðfélagans hefur aukist um tvö ár og er nú gert ráð fyrir að hann nái 89 ára aldri. Virði iðgjalda hans er hins vegar óbreytt, 40 milljónir kr., sem sjóðurinn áætlar nú að greiða út á 22 árum í stað 20. Við það lækka árleg réttindi úr 2 milljónum kr. í u.þ.b. 1,82 milljónir kr. og mánaðarlegar greiðslur úr 167.667 kr. í 151.515 kr.
Heildarlífeyrisgreiðslur yfir áætlaða ævi eru áfram þær sömu, þ.e. 40 milljónir.
Hve mikið breytast mín réttindi?
Í nýjum spám um lífslíkur kemur fram að ævi allra Íslendinga er að lengjast en þó mismikið eftir árgöngum. Því yngri sem sjóðfélagi er, því meira er ævi hans að lengjast skv. spá um lífslíkur. Breyting á mánaðarlegum réttindum er því mismikil eftir aldri sjóðfélaga en er að meðaltali lækkun sem nemur 9,9% fyrir allan sjóðfélagahópinn.
Hér má sjá lækkunina hjá hverjum árgangi fyrir sig:
Fæðingarár | Breyting | Fæðingarár | Breyting | Fæðingarár | Breyting |
2005 | -12,7% | 1989 | -11,4% | 1973 | -9,1% |
2004 | -12,6% | 1988 | -11,2% | 1972 | -8,9% |
2003 | -12,6% | 1987 | -11,1% | 1971 | -8,7% |
2002 | -12,5% | 1986 | -11,0% | 1970 | -8,5% |
2001 | -12,4% | 1985 | -10,9% | 1969 | -8,3% |
2000 | -12,3% | 1984 | -10,8% | 1968 | -8,1% |
1999 | -12,3% | 1983 | -10,7% | 1967 | -7,8% |
1998 | -12,2% | 1982 | -10,5% | 1966 | -7,6% |
1997 | -12,1% | 1981 | -10,4% | 1965 | -7,4% |
1996 | -12,0% | 1980 | -10,2% | 1964 | -7,1% |
1995 | -11,9% | 1979 | -10,1% | 1963 | -6,8% |
1994 | -11,8% | 1978 | -9,9% | 1962 | -6,6% |
1993 | -11,8% | 1977 | -9,8% | 1961 | -6,3% |
1992 | -11,7% | 1976 | -9,6% | 1960 | -6,0% |
1991 | -11,6% | 1975 | -9,5% | 1959 | -5,7% |
1990 | -11,5% | 1974 | -9,3% | 1958 | -5,4% |
1957 | -5,0% |
Lækkun hjá sjóðfélögum sem fæddir eru 1956 eða fyrr er 4,1%.
Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins gildir þó bakábyrgð ríkissjóðs um ákveðinn hóp sjóðfélaga. Það þýðir að breytingar á borð við þessa leiða ekki til lækkunar hjá þeim vegna þess að íslenska ríkið fjármagnar viðbótarkostnaðinn sem af því hlýst að halda réttindum þeirra óbreyttum. Þetta eru þeir sem náð höfðu 60 ára aldri eða höfðu hafið töku lífeyris þann 1. júní 2017 þegar breytingar voru gerðar á A-deild LSR og tekin var upp aldurstengd ávinnsla hjá sjóðnum.
Lækkun lífeyrisgreiðslna
Lækkun lífeyrisgreiðslna hjá þeim lífeyrisþegum sem ekki njóta bakábyrgðar ríkissjóðs verður 4,1% og tók hún gildi 1. júlí 2023.
Lækkun lífeyrisgreiðslna er þungbær aðgerð fyrir sjóðinn, en er engu að síður nauðsynleg í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Sjóðurinn þarf ávallt að gæta að jafnræði sjóðfélaga og sjá til þess að einn hópur njóti ekki ríkari réttinda á kostnað annars. Fjölgun eftirlaunaára, líkt og fjallað var um hér að ofan, þýðir að dreifa þarf heildarréttindum hvers lífeyrisþega yfir fleiri ár og við það lækkar mánaðarleg fjárhæð lífeyris.
LSR vill benda þeim lífeyrisþegum sem fá lækkun lífeyrisgreiðslna úr A-deild og eru með greiðslur frá Tryggingastofnun á að skila inn nýrri tekjuáætlun til TR. Lækkun á greiðslum frá LSR gæti þýtt að viðkomandi eigi rétt á hærri greiðslum frá TR.
Breytingar á framtíðarávinnslu 1. 1. 2023
Þann 1. janúar 2023 var tekið fyrra skrefið af tveimur í aðgerðum LSR til að bregðast við hækkandi lífaldri, en þá var lífeyrisávinnslu til framtíðar breytt í samræmi við breyttar lífslíkuforsendur. Hér má finna nánari umfjöllun um þessar aðgerðir.