16-70 ára
Greiðsla iðgjalda
60-80 ára
Upphaf eftirlaunatöku
Eftirlaun og örorkulífeyrir
Réttindi fyrir þig
Maka- og barnalífeyrir
Réttindi fyrir þína fjölskyldu
Hver eru þín réttindi?
Iðgjöld eru greidd af launagreiðslum frá 16 ára aldri til sjötugs. Hver iðgjaldagreiðsla veitir réttindi til eftirlauna eða örorku-, maka- eða barnalífeyris samkvæmt reglum sjóðsins, en meginreglan er að því hærri iðgjöld sem þú greiðir yfir ævina, því meiri réttindi öðlast þú.
Á Mínum síðum getur þú séð hversu mikil réttindi þú átt í dag. Þar geturðu líka áætlað væntanleg eftirlaun út frá núverandi launum og séð hvernig greiðslurnar breytast eftir því hvenær þú byrjar að taka eftirlaun.
Hvað sérðu á Mínum síðum?
- Núverandi lífeyrisréttindi
- Réttindi í öðrum lífeyrissjóðum
- Áætluð réttindi
- Áhrif þess að fresta eða flýta eftirlaunatöku
- Lífeyrisreiknivél
Aðild að A-deild
LSR er lokaður lífeyrissjóður fyrst og fremst fyrir ríkisstarfsmenn. Allir sem fá laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna og starfa hjá ríki, sveitarfélögum og hjá skyldum eða sambærilegum launagreiðendum eiga rétt til aðildar að A-deild LSR.
Til að uppfylla aðildarskilyrði að A deild þarf launagreiðandi að greiða til viðeigandi stéttarfélags (sjá lista hér til hliðar) og mótframlag launagreiðanda í A-deild þarf að vera 11,5%.
Launagreiðendur sem ekki teljast opinberir aðilar geta sótt um að greiða í A-deild LSR fyrir starfsfólk sitt séu þessi aðildarskilyrði uppfyllt.
Stéttarfélög sem veita aðild að A-deild
- Aðildarfélög BSRB
- Aðildarfélög BHM
- KÍ
- Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Jöfn eða aldurstengd réttindaávinnsla
Fyrstu 20 árin sem A-deild LSR var starfrækt, 1997-2017, byggðist hún á svokallaðri jafnri réttindaávinnslu. Hún virkar þannig að iðgjöld eru jafn verðmæt alla starfsævina, hvort sem þau eru greidd snemma á lífsleiðinni eða skömmu fyrir eftirlaunaaldur. Árlegur lífeyrisréttur í jafnri ávinnslu reiknast út frá réttindastuðli sem er í dag 1,98% af þeim launum sem iðgjöldin voru greidd af. Þetta þýðir í raun að sjóðfélagi sem greiðir í eitt ár í jafna ávinnslu til A-deildar LSR ávinnur sér árleg lífeyrisréttindi sem nema 1,98% af heildarlaunum þess árs.
Árið 2017 var skipt yfir í aldurstengda réttindaávinnslu, sem er það fyrirkomulag sem flestir aðrir lífeyrissjóðir á Íslandi nota. Í slíku kerfi eru iðgjöldin verðmætari eftir því sem sjóðfélagar eru yngri þegar þau eru greidd. Það er vegna þess að iðgjald sem greitt er á yngri árum ávaxtast lengur en iðgjald sem greitt er síðar. Sérstakar réttindatöflur segja til um verðmæti iðgjalda sjóðfélaga eftir aldri þeirra.
Munurinn á jafnri og aldurstengdri ávinnslu réttinda
Nánar um aldurstengda og jafna ávinnslu
Breytingin 2017 var framkvæmd þannig að þeir sem voru þá þegar í jafnri ávinnslu héldu henni áfram og munu gera það fram að töku eftirlauna, svo lengi sem iðgjöld eru greidd reglulega til A-deildar LSR. Ef greiðslum er hætt í 12 mánuði eða lengur fellur réttur til jafnrar ávinnslu niður og ef byrjað er aftur að greiða til A-deildar síðar verður það gert í aldurstengdri ávinnslu. Þó er heimilt að framlengja tímabilið um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs. Rétturinn helst hins vegar alltaf ef ráðningarsamband er fyrir hendi, t.d. vegna launalauss leyfis, og eins heldur sjóðfélagi jafnri ávinnslu ef hann byrjar að greiða til Brú lífeyrissjóðs.
-
Aldurstengd ávinnsla veitir mest réttindi á yngri árum, en svo minnka réttindin sem fást fyrir hverja greidda krónu með aldrinum. Jöfn ávinnsla er jafn mikil alla ævi. Þetta þýðir að framan af ævinni veitir aldurstengd ávinnsla meiri réttindi en sú jafna, en um miðja ævi snýst þetta við og jafna ávinnslan verður verðmætari en sú aldurstengda.
Ef þú ert nú þegar að greiða í aldurstengda ávinnslu þá mun það haldast óbreytt út starfsævina, því ekki er hægt að færa sig yfir í jafna ávinnslu. Ef þú ert hins vegar að greiða í jafna ávinnslu er gott að þú hafir í huga að á seinni hluta ævinnar eru lífeyrisiðgjöld jafnan verðmætari í jafnri ávinnslu en aldurstengdri. Þannig muntu fá meiri iðgjaldaréttindi héðan í frá með því að halda áfram að greiða í jafna ávinnslu.
-
Starfsmenn í jafnri ávinnslu hjá launagreiðendum sem eru ekki hefðbundnar ríkisstofnanir, þ.e. ekki fjármagnaðar að meirihluta með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum, geta haldið jafnri ávinnslu áfram. Þá þarf launagreiðandi þeirra að greiða sérstakt iðgjald sem kemur til viðbótar hefðbundnu iðgjaldi.
Þetta iðgjald er breytilegt og má finna nánari upplýsingar um það á upplýsingasíðum launagreiðenda. Ef sérstaka iðgjaldið er ekki greitt reiknast réttindi sjóðfélaga í aldurstengdri ávinnslu.