Fara á efnissvæði
Mínar síður

Lausnir á greiðsluvanda

Ef þú átt í vandræðum með að greiða afborganir af láni hjá LSR eða sérð fram á greiðsluvanda standa þér ýmsir kostir til boða. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að leita lausna eins fljótt og hægt er til að forðast vanskilakostnað.

Sjá má þær leiðir sem LSR býður til að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda hér fyrir neðan.

  • Greiðslubyrði lána er felld niður tímabundið að öllu leyti eða að hluta. Að greiðslufresti loknum er þeim gjalddögum sem var frestað bætt við höfuðstól lánsins. Greiðslufrestur er veittur til allt að 12 mánaða.
    Hægt er að velja milli tveggja kosta, annars vegar að fresta gjalddögum að öllu leyti, þ.e. greiðslu afborgunar höfuðstóls, vaxta og verðbóta (ef lánið er verðtryggt) og hins vegar að fresta gjalddögum að hluta. Þá er afborgun af höfuðstól frestað, en vextir og verðbætur greiddar á hverjum gjalddaga.

    Hafa þarf í huga að ef vextir og verðbætur eru ekki greiddar hækkar höfuðstóll lánsins sem þeim nemur og þar með verður greiðslubyrði lánsins hærri að greiðslufresti loknum. Jafnframt þarf að greiða fyrir skjalagerð og þinglýsingargjald hjá sýslumanni. Ef sækja á um greiðslufrest á lánum sem eru tryggð með lánsveði þarf jafnframt að framkvæma greiðslumat.

    Umsókn um greiðslufrest má finna á umsóknasíðunni.

  • Hægt er að taka lán til allt að 40 ára. Ef þú tókst lán til skemmri tíma getur þú lengt lánstímann og létt þar með á reglulegri greiðslubyrði. Hafa þarf í huga að með lengri lánstíma hækkar heildargreiðsla lánsins því vextir og verðbætur eru greidd í lengri tíma. Gott er að nota lánareiknivélina til að sjá áhrif af lengri greiðslutíma láns.

    Sótt er um lengingu lánstíma með umsókn um breytingu greiðsluskilmála, sem er á umsóknasíðunni.

  • Ef lán þitt er ekki mánaðarlegum afborgunum geta afborganir verið háar. Ef slíkt er raunin og þú átt í vandræðum með afborganir gæti mögulega hentað að breyta yfir í mánaðarlegar afborganir til að útgjöld séu jafnari.

    Sótt er um fjölgun gjalddaga með umsókn um breytingu greiðsluskilmála, sem er á umsóknasíðunni.

  • Ef lántakandi lendir í vanskilum er möguleiki að semja um að greiða þann hluta vanskila sem lántakandi ræður við en leggja eftirstöðvarnar við höfuðstól. Við það hækka eftirstöðvar lánsins og greiðslubyrðin hækkar þar af leiðandi frá því sem var fyrir vanskil. Ekki er hægt að sækja oft um þessa lausn, auk þess sem möguleiki til samninga af þessu tagi getur takmarkast af veðrými og samþykki síðari veðhafa.

    Sótt er um skuldbreytingu með umsókn um breytingu greiðsluskilmála, sem er á umsóknasíðunni.

  • Ef um nýlegt lán er að ræða er greiðslubyrði með jöfnum afborgunum af höfuðstól nokkuð þyngri en af jafngreiðsluláni (annuitet). Ef kemur til greiðsluvanda láns með jöfnum afborgunum gæti því hjálpað að óska eftir skilmálabreytingu þannig að afborganir miðist við jafnar greiðslur. Þó þarf að hafa í huga að jafngreiðslulán eru dýrari en lán með jöfnum afborgunum þegar upp er staðið.

    Sótt er um breytingu á lánstegund með umsókn um breytingu greiðsluskilmála, sem er á umsóknasíðunni.