Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

Yfirlýsing vegna sölu áfengis í netverslun Haga

22. október 2024

LSR hefur átt samtal við forsvarsmenn Haga hf. í kjölfar þess að nýstofnað dótturfélag þess hefur hafið sölu áfengis í gegnum netverslun sem þjónustuð er af verslunum Hagkaups.

LSR á rétt um 13,5% eignarhlut í Högum hf. Í eigendastefnu LSR segir m.a. að sjóðurinn geri kröfu um að félög sem hann fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart félagslegum þáttum, umhverfislegum þáttum og að starfað sé í samræmi við góða stjórnarhætti. Jafnframt hvetur sjóðurinn félög til að sýna ábyrgð gagnvart félagslegum og umhverfislegum þáttum í starfsemi sinni.

Ýmsir hafa gagnrýnt þessa starfsemi Haga hf., þar á meðal samtök heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka, sem telja að með henni sé verið að auka aðgengi að áfengi, sem getur leitt til aukinna lýðfræðilegra og félagslegra vandamála. LSR deilir þessum áhyggjum og kallaði því eftir samtali við Haga hf. þar sem sjóðurinn áréttaði að félagið, í ljósi umfangs þess í íslensku efnahagslífi, beri mikla ábyrgð í sinni starfsemi. Sérstaklega ef ráðist er í aðgerðir á borð við þessar, þar sem augljóslega er reynt á þanþol bæði laga og samfélagslegrar ábyrgðar.

Fyrir liggur að lögmæti starfsemi netverslana með áfengi er til rannsóknar hjá yfirvöldum, ásamt því sem verið er að endurskoða lagaumhverfi áfengissölu í landinu. LSR mun áfram fylgjast með framvindu þessa máls og opna á frekara samtal við Haga hf. eftir því sem þurfa þykir.