Sjóðfélagar fá tilkynningu um sendinguna frá Ísland.is og geta þá skoðað réttindayfirlit sín með því að skrá sig inn á vefinn með rafrænum skilríkjum. Yfirlitið er hálfsársyfirlit fyrir fyrri helming ársins og miðast við greiðslur fram til 30. júní 2023.
Eftir lagabreytingu fyrr á árinu er lífeyrissjóðum heimilt að senda regluleg yfirlit til sjóðfélaga með rafrænum hætti í stað þess að senda yfirlit á pappír með hefðbundnum pósti. Í kjölfarið var ákveðið að yfirlitið sem sent var með bréfpósti í júní sl. yrði það síðasta sem LSR myndi senda út á pappír og var tilkynnt um það í fréttabréfi sjóðsins sem fylgdi yfirlitinu.
Rafræn útsending sjóðfélagayfirlita er mikið framfaraskref fyrir sjóðinn. Slíkar útsendingar spara umtalsverðan kostnað við prentun og póstsendingu auk þess sem hver útsending er einfaldari í framkvæmd og þannig sparast tími hjá starfsfólki. Rafrænar útsendingar eru jafnframt mun umhverfisvænni – eðli málsins samkvæmt fylgir þeim hvorki pappírsnotkun né umhverfisáhrif af völdum prentunar og póstflutnings.
Samhliða breyttum sendingarmáta hafa yfirlitin jafnframt verið endurhönnuð með það fyrir augum að einfalda og skýra upplýsingarnar sem birtar eru.