Séreignargreiðslur áfram leyfðar inn á fasteignalán
10. janúar 2025
Heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignalána var fyrir skömmu framlengd og gildir hún nú út árið 2025. Hafi heimildin verið nýtt á síðasta ári þarf ekki að sækja sérstaklega um áframhaldandi nýtingu.
Viðmiðunarfjárhæðir breytast ekki, en einstaklingar geta ráðstafað allt að 500.000 kr. af séreignarsparnaði skattfrjálst á ári inn á fasteignalán. Hjón og samskattaðir einstaklingar geta nýtt samanlagt 750.000 kr.
Þau sem nýttu þessa heimild á síðasta ári þurfa ekki að sækja um áframhaldandi nýtingu hjá Skattinum, heldur mun hún sjálfkrafa halda áfram á þessu ári. Hafi heimildin hins vegar ekki verið nýtt þarf að senda inn umsókn til Skattsins sé óskað eftir því að greiðslur hefjist á þessu ári. Eins þarf að tilkynna það til Skattsins ef hætta á greiðslum séreignarsparnaðar inn á fasteignalán.
Engar breytingar voru gerðar á reglum um ráðstöfun séreignarsparnaðar við kaup á fyrstu íbúð.
Hér má finna nánari upplýsingar um séreign til fasteignakaupa.