Meðal helstu nýjunga má nefna að á sérstökum lífsviðburðasíðum hafa verið teknar saman upplýsingar, leiðbeiningar og eyðublöð sem geta nýst sjóðfélögum á ákveðnum tímamótum í lífi þeirra. Þar eru tekin saman góð ráð skref fyrir skref og er m.a. hægt að sækja þær sem PDF-skjöl.
Framsetning upplýsinga á Mínum síðum hefur jafnframt verið endurbætt og einfölduð. Á forsíðu þjónustuvefsins má nú finna samantekt yfir alla þá þjónustu sem sjóðfélagi er með hjá LSR, hvort sem það eru lífeyrisréttindi eða lífeyrisgreiðslur, inneign í séreign eða fasteignalán. Á hverri undirsíðu fyrir sig er svo hægt að fá ítarlegri upplýsingar.
Sjóðfélagar sem fá greiðslur frá sjóðnum geta nú jafnframt stillt nýtingu persónuafsláttar og skattkorts beint á Mínum síðum, auk þess að skrá bankareikningsupplýsingar.
Meðal annarra nýjunga á ytri vefnum er að myndræn framsetning á gögnum hefur verið aukin með töflum og gröfum, auk þess sem aðgengi að reiknivélum fyrir lán og lífeyri hefur verið bætt. Þá hefur texti verið endurskrifaður með það fyrir augum að gera hann einfaldari og hjálplegri.
Þessu til viðbótar hefur stór hluti vefsins ásamt Mínum síðum verið þýddur á ensku. Þýðingar á flestum síðum sem eftir standa munu bætast við á næstu dögum.
Eins og búast má við eftir jafn stóra uppfærslu og þessa er mögulegt að einhverjir hnökrar verði á þjónustunni og biðjumst við velvirðingar á því meðan við slípum vefinn til. Ef notendur vefsins hafa einhverjar ábendingar tökum við þeim fagnandi á netfangið vefstjori@lsr.is.
Það var fyrirtækið Vettvangur sem aðstoðaði við hönnun og uppsetningu á nýjum vef og Mínum síðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.