Merkir áfangar náðust á góðu rekstrarári LSR
10. apríl 2025
Árið 2024 var gott rekstrarár hjá LSR og skilaði sjóðurinn í heild 12,4% nafnávöxtun, sem samsvarar 7,1% hreinni raunávöxtun. Hreinar fjárfestingatekjur sjóðsins námu 173 milljörðum króna, sem er það næstmesta á einu ári í sögu LSR. Heildareign sjóðsins í árslok var tæpir 1.567 milljarðar króna.

LSR: Hrein eign til greiðslu lífeyris
Á síðasta ári fóru eignir sjóðsins í fyrsta sinn yfir 1.500 milljarða króna. Það var þó ekki eini merkisáfanginn sem náðist á árinu, því lífeyrisgreiðslur LSR voru alls 103,6 milljarðar króna og er það í fyrsta sinn sem greiðslur til sjóðfélaga fara yfir 100 milljarða á einu ári. Meðalfjöldi lífeyrisþega var rétt undir 26.000, sem er fjölgun um tæplega 1.300 milli ára. Þá fjölgaði virkum sjóðfélögum um ríflega 600 og voru þeir að meðaltali um 32.000 árið 2024. Gott rekstrarár leiddi jafnframt til þess að tryggingafræðileg staða A-deildar var jákvæð um 1,2% í árslok, sem er besta staða deildarinnar frá árinu 2016.
Lífeyrisgreiðslur LSR
Þetta er meðal niðurstaðna ársreikninga LSR fyrir árið 2024, sem stjórn sjóðsins staðfesti á fundi sínum í gær, 9. apríl. Þar kemur jafnframt fram að hrein raunávöxtun A-deildar LSR var 6,9%, B-deildar 8,3% og hjá Séreign var hrein raunávöxtun Leiðar I 8,5%, Leiðar II 6,7%, 2,1% hjá Leið III og 6,1% í Tilgreindri séreign. Fimm ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar sjóðsins í heild er 2,8% og 10 ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar 4,2%.
Hlutabréf skila góðri ávöxtun
Markaðir voru nokkuð sveiflukenndir á árinu, en á endanum reyndist ávöxtun góð, sér í lagi af innlendum og erlendum hlutabréfum. Innlend hlutabréf hækkuðu mest á síðustu mánuðum ársins á meðan erlend hlutabréf hækkuðu nokkuð jafnt og þétt á árinu. Skuldabréf skiluðu talsvert minni ávöxtun, en ágætri engu að síður.
Verðbréfaeign LSR 2024
Eignasafn sjóðsins í árslok skiptist þannig að eign í skuldabréfum var 620,8 milljarðar kr., eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum var 880 milljarðar kr. og innlán námu 55,8 milljörðum kr. Hlutfall verðbréfaeigna í erlendum gjaldmiðlum var 47,2% og hlutfall verðtryggðra eigna var um 31,7% af eignasafni sjóðsins í árslok 2024.
Nánar um deildir LSR 2024
-
Nafnávöxtun var 12,2% á árinu 2024 sem svarar til 6,9% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára er 3,0% og meðaltal síðustu tíu ára er 4,4%. Heildareignir A-deildar námu 1.302,4 milljörðum kr. í lok árs 2024.
Verðbréfaeign deildarinnar skiptist þannig í árslok 2024 að 40,6% af eignum A-deildar voru í skuldabréfum, 15,3% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 42,5% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 1,6% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 46,8% í árslok.
Á árinu 2023 fengu að meðaltali 14.054 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 25.944 milljarða kr. Að meðaltali greiddu 31.053 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar og námu iðgjöld á árinu samtals 48,8 milljörðum kr.
-
Nafnávöxtun var 13,8% á árinu 2024 sem svarar til 8,3% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára er 2,5% og meðaltal síðustu tíu ára er 4,0%. Heildareignir B-deildar námu 233 milljörðum kr. í lok árs 2024.
Verðbréfaeign deildarinnar skiptist þannig í árslok 2024 að 38,6% af eignum B-deildar voru í skuldabréfum, 15,8% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 37,3% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 8,3% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 42,7% í árslok.
Á árinu 2024 fengu að meðaltali 18.984 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 76,2 milljarða kr. Að meðaltali greiddi 671 sjóðfélagi iðgjald til deildarinnar á árinu og námu iðgjöld á árinu samtals 0,9 milljörðum kr.
Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2024 var 1.172 milljarðar kr. og hækkaði hún um 0,5% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 653 milljörðum kr. af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 519 milljarðar kr. Endurmetin hrein eign sjóðsins var 237 milljarðar kr. í árslok samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt. Fyrir þeim 283 milljörðum kr. sem upp á vantar til að fjármagna skuldbindingar sjóðsins að fullu á hann kröfu á ríkissjóð vegna bakábyrgðar.
-
Nafnávöxtun Leiðar I var 13,8% sem svarar til 8,5% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 11,9% sem svarar til 6,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 7,0% á síðasta ári sem svarar til 2,1% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Tilgreindrar séreignar var 11,3%, sem svarar til 6,1% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir Séreignar námu 31,2 milljörðum kr. í árslok 2024. Fjárfestingarleiðir Séreignar eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra því mismikið.
Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2024 skiptist þannig að 32,8% voru í skuldabréfum, 15,2% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 49,9% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 2,1% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 49,9% í árslok.
Verðbréfaeign Leiðar II í árslok 2024 skiptist þannig að 62,1% voru í skuldabréfum, 7,7% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 27,0% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 3,3% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 27,0% í árslok.
Verðbréfaeign Tilgreindrar séreignar í árslok 2024 skiptist þannig að 44,2% voru í skuldabréfum, 12,1% í innlendum hlutabréfum og sjóðum, 28,5% í erlendum hlutabréfum og sjóðum og 15,3% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 32,5% í árslok.
Á árinu 2024 fengu að meðaltali 344 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign samtals að fjárhæð 1.124 milljónum kr. Iðgjöld námu rúmlega 1.583 milljónum kr. á árinu 2024 en að meðaltali greiddu 3.257 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu.